Erlent

Duterte vill rjúfa Rómarsamþykktina

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rodrigo Duterte skar upp herör gegn fíkniefnum á Filippseyjum.
Rodrigo Duterte skar upp herör gegn fíkniefnum á Filippseyjum. Vísir/afp
Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, hvatti í dag þá sem eru hluti af Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn (ICC) um draga sig úr henni. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Í síðasta mánuði hóf Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn athugun á fíkniefnastríði forsetans sem hefur leitt til dauða þúsunda frá því það hófst í júlí 2016.

Í síðustu viku lét Duterte aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, vita af því að hann hefði í hyggju að segja Filippseyjar frá samþykktinni. Hann segir að athugun Alþjóðlega sakamáladómstólsins ekki vera neitt annað en ósvífna árás Sameinuðu þjóðanna auk þess sem það sé brot á réttlátri málsmeðferð.

„Mér mun takast að sannfæra alla aðila samkomulagsins um að forða sér ekki seinna en strax,“ segir Duterte.

Lögreglan á Filippseyjum hefur drepið um fjögur þúsund manns á síðustu nítján mánuðum. Þetta hefur valdið alþjóðasamfélaginu miklum áhyggjum og sumir telja að dánartíðnin sé mun hærri en yfirvöld hafa gefið út.

Lögregluyfirvöld segja að allt þetta fólk hafi dáið í lögmætum aðgerðum gegn fíkniefnum. Fólkið hafi sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun þegar lögreglan hafi reynt að handtaka það og þess vegna hafi lögreglan ákveðið að skjóta það.

Þúsundir hafa verið teknir af lífi án dóms og laga í fíkniefnastríði Duterte forseta.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×