Erlent

Fyrstu bílalestirnar til Austur-Ghouta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ungur drengur, sem missti hönd í átökunum, liggur í sjúkrahúsrúmi í Austur-Ghouta.
Ungur drengur, sem missti hönd í átökunum, liggur í sjúkrahúsrúmi í Austur-Ghouta. Nordicphotos/AFP
Sýrland Líklegt þykir að ríkisstjórn Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, heimili hjálparsamtökum að flytja nauðsynjar með bílalest til særðra og þurfandi í bænum Douma í Austur-Ghouta á sunnudaginn. Frá þessu greindi Geert Cappelaere, forstöðumaður UNICEF í Mið-Austurlöndum, í gær. Til stendur að lestin flytji nauðsynjar fyrir nærri 200.000 manns en samkvæmt Cappelaere er þörf á frekari bílalestum til að aðstoða 400.000 almenna borgara á svæðinu.„Sýrlenska ríkisstjórnin hefur gefið í skyn að bílalestin fái að fara inn í Austur-Ghouta þann 4. mars. Við vonumst til þess að orð þeirra verði að skuldbindingu og erum tilbúin hvenær sem er,“ sagði Cappelaere. Hann bætti því við að í ljósi sögunnar þyrftu hjálparsamtök þó að vera raunsæ. Benti hann á að stjórnarliðar hefðu oft hirt birgðir úr bílunum.Rússar fyrirskipuðu í vikunni daglega fimm klukkustunda pásu á þessum hörðu átökum, sem hafa kostað nærri 600 lífið á tæpum tveimur vikum, í því skyni að leyfa hjálparsamtökum að koma inn á svæðið og almennum borgurum að flýja. Þau markmið hafa þó ekki náðst og hafa hjálparsamtök og erindrekar Sameinuðu þjóðanna sagt tímann allt of skamman. Enn bólar svo ekkert á innleiðingu ályktunar Öryggisráðs SÞ um 30 daga vopnahlé í Sýrlandi.Herforingi stjórnarliða í Austur-Ghouta sagði í gær að markmið þeirra væri nú að endurheimta svæðið, skref fyrir skref. Eftirlitssamtök sögðu í gær að það gengi vel hjá stjórnarliðum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.