Erlent

Fyrstu bílalestirnar til Austur-Ghouta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ungur drengur, sem missti hönd í átökunum, liggur í sjúkrahúsrúmi í Austur-Ghouta.
Ungur drengur, sem missti hönd í átökunum, liggur í sjúkrahúsrúmi í Austur-Ghouta. Nordicphotos/AFP

Sýrland Líklegt þykir að ríkisstjórn Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, heimili hjálparsamtökum að flytja nauðsynjar með bílalest til særðra og þurfandi í bænum Douma í Austur-Ghouta á sunnudaginn. Frá þessu greindi Geert Cappelaere, forstöðumaður UNICEF í Mið-Austurlöndum, í gær. Til stendur að lestin flytji nauðsynjar fyrir nærri 200.000 manns en samkvæmt Cappelaere er þörf á frekari bílalestum til að aðstoða 400.000 almenna borgara á svæðinu.

„Sýrlenska ríkisstjórnin hefur gefið í skyn að bílalestin fái að fara inn í Austur-Ghouta þann 4. mars. Við vonumst til þess að orð þeirra verði að skuldbindingu og erum tilbúin hvenær sem er,“ sagði Cappelaere. Hann bætti því við að í ljósi sögunnar þyrftu hjálparsamtök þó að vera raunsæ. Benti hann á að stjórnarliðar hefðu oft hirt birgðir úr bílunum.

Rússar fyrirskipuðu í vikunni daglega fimm klukkustunda pásu á þessum hörðu átökum, sem hafa kostað nærri 600 lífið á tæpum tveimur vikum, í því skyni að leyfa hjálparsamtökum að koma inn á svæðið og almennum borgurum að flýja. Þau markmið hafa þó ekki náðst og hafa hjálparsamtök og erindrekar Sameinuðu þjóðanna sagt tímann allt of skamman. Enn bólar svo ekkert á innleiðingu ályktunar Öryggisráðs SÞ um 30 daga vopnahlé í Sýrlandi.

Herforingi stjórnarliða í Austur-Ghouta sagði í gær að markmið þeirra væri nú að endurheimta svæðið, skref fyrir skref. Eftirlitssamtök sögðu í gær að það gengi vel hjá stjórnarliðum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.