Erlent

„Ef það eimir enn eftir af réttlæti í kerfinu mun hann taka út refsingu“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harvey Weinstein og Meryl Streep hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina.
Harvey Weinstein og Meryl Streep hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina. Vísir/Getty

Bandaríska leikkonan Meryl Streep segir kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein, sem sakaður hefur verið um kynferðisofbeldi í garð fjölmargra kvenna, „aumkunarverðan“ eftir að lögfræðingar Weinstein notuðu umsögn Streep í málsvörn sinni.



Sex konur, Louisette Geiss, Katherine Kendall, Zoe Brock, Sarah Ann Thomas, Melissa Sagemiller og Nannette Klatt, hafa kært Weinstein fyrir að beita sig kynferðislegu ofbeldi og/eða áreita þær kynferðislega. Þá halda þær því fram að ofbeldið hafi verið þaggað kerfisbundið niður innan fyrirtækja Weinstein, kvikmyndaveranna Miramax og The Weinstein Company.



Sjá einnig: Framleiðandi sakar Harvey Weinstein um líkamsárás



Lögfræðingar Weinstein hafa farið fram á að lögsókninni verði vísað frá, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian. Máli sínu til stuðnings hafa þeir tekið dæmi um vitnisburð kvenna á borð við Jennifer Lawrence og áðurnefndrar Meryl Streep, sem hefur lýst því yfir að Weinstein hafi alltaf hagað sér sómasamlega í samskiptum við hana.



Aumkunarverð notkun á yfirlýsingunni

Í yfirlýsingu fordæmir Streep notkun lögfræðinga Weinsteins á ummælum sínum.



„Notkun lögfræðinga Harvey Weinstein á yfirlýsingu minni, þ.e. að hann hafi ekki sýnt af sér kynferðislega tilburði eða beitt mig ofbeldi í faglegu sambandi okkar, sem sönnun þess að hann hafi ekki beitt margar aðrar konur ofbeldi er aumkunarverð,“ segir í yfirlýsingu sem Streep sendi frá sér vegna málsins.



Þá vill hún að Weinstein beri ábyrgð á því ofbeldi sem hann hefur beitt umræddar konur.



„Ef það eimir enn eftir af réttlæti í kerfinu mun hann taka út refsingu,“ segir í yfirlýsingunni.



Hafa unnið náið saman

Streep hefur sjálf verið gagnrýnd fyrir að stíga of seint fram og fordæma hegðun Harvey Weinstein. Hún hefur auk þess verið sökuð um að hafa vitað af því sem fór fram bak við tjöldin hjá fyrirtækjum Weinstein, en að hafa þrátt fyrir það haldið áfram að vinna með honum.



Rúmlega 75 konur hafa nú stigið fram og sakað Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni eða kynferðisofbeldi. Weinstein þvertekur fyrir allar ásakanir.


Tengdar fréttir

New York ríki kærir fyrirtæki Weinstein

Weinstein hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi og áreitni í garð fjölda kvenna síðustu misseri, þar á meðal þekktra leikkvenna.

Segir Weinstein hafa vísvitandi eyðilagt feril sinn

Leikkonan Mira Sorvino þakkar Peter Jackson fyrir hreinskilni sína eftir að hann sagði í viðtali á dögunum að Weinstein hafi komið í veg fyrir að hún yrði valin fyrir hlutverk í Lord of the Rings þríleiknum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×