Innlent

Segir ljóst að flytja þurfi hælisleitandann til baka fari mál hans fyrir dóm

Birgir Olgeirsson skrifar
Lilja Margrét Olsen er verjandi mannsins sem ráðist var á á Litla Hrauni í vikunni.
Lilja Margrét Olsen er verjandi mannsins sem ráðist var á á Litla Hrauni í vikunni.

Réttargæslumaður hælisleitandans Houssin Bsraoi segir algjörlega ljóst að flytja þarf hann aftur til landsins ef líkamsárásarmál gegn honum fer fyrir dómstóla.

Bsraoi varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Litla-Hrauni um miðjan síðasta mánuð. Hann sat inni á Litla-Hrauni vegna ítrekaðra flóttatilrauna þar sem hann hafði freistað þess að komast til Kanada með Eimskip.

Eftir árásina var hann fluttur á Hólmsheiði og sat þar inni þar til hann var sóttur á þriðjudag og fluttur úr landi til Marokkó, þaðan sem hann flúði.

Sjá einnig: Segja að hælisleitandinn sé 22 en ekki 18 ára

Rætt var við réttargæslumann hans, Lilju Margréti Olsen, á vef Ríkisútvarpsins fyrr í dag en í samtali við Vísi segir Lilja að ekki sé vitað hvort ákæra verði gefin út vegna líkamsárásarinnar, en hún reikni fastlega með því.

Rannsóknin á málinu er á lokametrunum. Lögreglan leggur síðan málið í hendur embættis héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út í málinu. Fari svo fer málið fyrir héraðsdóm þar sem taka þarf skýrslu af Bsraoi.

Ekki hægt að ræða við lykilvitni í gegnum síma
Hann er ekki aðeins brotaþoli í málinu heldur einnig lykilvitni. Lilja Margrét segir það liggja algjörlega ljóst fyrir að ekki muni duga að taka skýrsluna af Bsraoi í gegnum síma heldur þurfi það að gerast í réttarsal hér á landi.

Sakamálalögin gera ráð fyrir því að sé um lykilvitni að ræða þá gildi sú meginregla um milliliðalausa sönnunarfærslu að dómari þarf að sitja fyrir framan vitni á meðan það gefur skýrslu.

„Þannig að hann getur ekki gefið skýrslu öðruvísi en að koma til landsins,“ segir Lilja.

Galið fyrirkomulag
Hún segir það vera galið fyrirkomulag að séu hælisleitendur í réttarvörslukerfinu grunaðir um refsiverða háttsemi þá eru þeir ekki brottfluttir en séu þeir þolendur þá eru þeir brottfluttir.

„Þetta er í raun og veru alvarleg staða í réttarvörslukerfinu að mínu mati. Þrátt fyrir ítrekaða fjölmiðlaumfjöllun og umræður á þingi þá virðist ekki hægt að koma þessum málum í almennilegan farveg,“ segir Lilja.

Verkferlar eru bara ekki skýrir eins og þeir þurfa að vera í jafn viðkvæmum málaflokki og þessum.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.