Innlent

Segir ásakanir um karlrembu pínlegan þvætting

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Friðrik Erlingsson handritshöfundur Lói - þú flýgur aldrei einn segir að "ég á hana“ línan umdeilda hafi verið misskilningur þýðanda.
Friðrik Erlingsson handritshöfundur Lói - þú flýgur aldrei einn segir að "ég á hana“ línan umdeilda hafi verið misskilningur þýðanda. Samsett/Vísir/Anton Brink
Teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn, var frumsýnd fyrr í þessum mánuði og hefur vakið mikla athygli. Alls komu 400 einstaklingar að gerð myndarinnar og tók ferlið fimm og hálft ár. Framleiðslukostnaður hennar var um einn milljarður króna og hefur hún verið seld til sýninga í kvikmyndahúsum í yfir 60 löndum á heimsvísu. Friðrik Erlingsson handritshöfundur ræddi við okkur um myndina og þá gagnrýni sem hún hefur fengið, meðal annars vegna skorts á kvenpersónum og birtingarmyndar karlmennskunnar.

„Sem betur fer hefur myndinni verið mjög vel tekið hérlendis, sem er auðvitað ánægjulegt. Ég veit ekki um sýningar erlendis, en erlendir dreifingaraðilar virðast vera nokkuð öryggir um að hún muni ganga vel. Samkeppnin er náttúrlega hörð á þessu sviði kvikmynda. Pixar ber höfuð og herðar yfir aðra, enda er þar margreyndur hópur fólks sem hefur úr nægu fé og gríðarlegri reynslu að spila. En vonandi kemst þessi grein íslenskrar kvikmyndagerðar einhvern tímann á par við það sem „best gerist erlendis“ eins og maðurinn sagði,“ segir Friðrik um viðbrögðin við myndinni.

Teiknimyndin fjallar um lóuungann Lóa, sem er ófleygur að hausti þegar farfuglarnir halda suður á bóginn. Lói þarf að lifa af harðan vetur, grimma óvini og takast á við sjálfan sig til að sameinast ástinni sinni að vori. Einnig kom út samnefnd bók sem notið hefur mikilla vinsælda.

Getur verið snúin barátta

„Upphaflega ætlaði ég að gera litla myndskreytta bók um lóuungann sem þarf að þreyja veturinn. En þegar ég bar þessa hugmynd undir Hilmar Sigurðsson og Gunnar Karlsson, sem þá voru nýbúnir að stofna fyrirtækið Gunhil, til þess að framleiða kvikaðar myndir, leist þeim vel á að taka þetta lengra. Við höfðum áður unnið saman að Litlu lirfunni ljótu og Þór-Hetjum Valhallar. Starf og ábyrgð handritshöfundarins er hið sama, hvort sem verkefnið er lítið eða stórt; fyrst og fremst að koma sögunni heim og saman, sníða af henni vankanta og gæta þess í öllum endurskrifum að hún tapi ekki þeim eiginleikum og grunnþáttum sem lagt var af stað með í upphafi. Höfundur þarf stundum að vernda söguna og verja hana fyrir því sem gæti leitt hana inn á einhverjar allt aðrar brautir en lagt var af stað með. Það getur stundum orðið snúin og hörð barátta.“

Það sem Friðriki finnst hafa tekist best upp er hinn magnaði myndheimur sem Gunnar Karlsson hefur skapað.

„Þetta er fullkomin íslensk náttúra með öllum sínum smáatriðum, en honum tekst líka að gæða umhverfið alveg sérstökum töfrablæ sem er afar eftirminnilegur. Mér finnst Karri líka vera feikilega vel heppnaður teiknimyndakarakter. Það væri hægt að smíða heila þáttaröð um hann einan. Tónlist Atla Örvarssonar er svo líka bæði fögur og áhrifamikil.“

Friðrik segir að eins og í hefðbundinni kvikmyndagerð sé það leikstjórinn sem mótar framleiðslu myndarinnar og tekur þær ákvarðanir um breytingar sem honum finnst réttastar. Sjálfur var Friðrik ekki viðriðinn framleiðsluferli myndarinnar eftir að hann skilaði lokahandriti en segir að tíminn við handritsskrifin hafi verið bæði skemmtilegur og gefandi.

„Ég er alltaf óánægður með það sem ég læt frá mér fara og finnst eftir á að ég hefði getað gert betur. En endanleg kvikmynd er oftast niðurstaða á ákveðinni málamiðlun sem hefur átt sér stað í framleiðsluferlinu. Atriði sem handritshöfundinum þótti ómissandi er kannski samt sem áður sleppt í lokagerð myndarinnar, og fyrir því geta verið margar ástæður. Varðandi framleiðsluna á Lóa þá steig ég út fyrir rammann þegar ég hafði skilað endanlegu lokahandriti og blandaði mér ekki í þær ákvarðanir sem teknar voru eftir það. Það verður alltaf einhver munur á handriti og endanlegri kvikmynd, sérstaklega þegar um er að ræða svo stórt verkefni, þar sem margir aðilar koma að þróun og ákvarðanatöku á hinum ýmsu stigum framleiðslunnar. En niðurstaðan er sú sem hún er og flestir sem séð hafa virðast mér sáttir, þótt það geti eðlilega ekki gilt um alla,“ svarar Friðrik aðspurður um það hvort hann hefði viljað gera eitthvað öðruvísi.

Alls komu 400 einstaklingar að gerð myndarinnar um Lóa og tók ferlið fimm og hálft ár.

Börnum sama um kynferði persóna

Einhverjum fannst skorta góðar kvenkynspersónur í myndinni. Benti einn gagnrýnandi líka á að það hefði mátt leyfa kvenkyns sögupersónunum að tala saman um eitthvað annað en karlkynið.

„Þess verður þó að geta að um íslenska kvikmynd er að ræða og í ljósi áralangrar gagnrýni á að þær séu gjarnan karlmiðaðar er Lói síður en svo bylting. Kvenpersónur myndarinnar hefðu mátt eiga stærri þátt í framvindunni en þær virðast ekki tala um neitt annað en Lóa,” skrifaði Vilhjálmur Ólafsson í Engar stjörnur, gagnrýnendasíðu Kvikmyndafræði Háskólans.

Aðspurður um skort á kvenpersónum og hvort myndin hefði staðist Betchel-prófið svarar Friðrik:

„Miðað við samtöl mín við börn og ungt fólk um efni sem ég hef samið, eins og til dæmis Benjamín dúfu, þá upplifa börn ekki kynferði sögupersóna, heldur skiptir þau mestu máli að þau finni til með persónunni eða geti sett sig í spor hennar. Ég skrifaði handritið að Litlu lirfunni ljótu og þar eru fimm kvenpersónur en aðeins tvær karlpersónur með talandi hlutverk. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt nein húrrahróp yfir fjölda kvenpersóna í þeirri mynd. Í Lóa eru nákvæmlega eins margar kven- og karlpersónur og nauðsynlegar eru fyrir framvindu sögunnar; þær tala um það sem skiptir máli fyrir framvindu sögunnar og þær gera það sem þær þurfa að gera - fyrir framvindu sögunnar. Og börnum stendur nákvæmlega á sama um kynferði sögupersóna, eins og ég nefni hér að ofan; börn eru tilfinningaverur og það er á tilfinningasviðinu sem þau upplifa sögupersónur.

Á mínum uppvaxtarárum var Lína langsokkur alveg jafn merkileg og mikilvæg hetja og Prins Valiant eða Hrói höttur. Því ef söguhetjan sýnir staðfestu í því að ná markmiði sínu þá er hún góð „fyrirmynd,“ ef skáldsagnapersónur geta á annað borð verið fyrirmyndir, jafnvel þótt hún sé karlkyns lóa. Í handritinu að Lóa áttu lóumæðurnar alveg hreint stórskemmtilegt samtal um franska matargerð, nánar tiltekið um einn sérstakan rétt þar sem aðaluppistaðan eru innbakaðar lóur. Því miður er þetta atriði ekki í myndinni, en ef það hefði verið þar, þá hefði kannski verið spurt hvort ég héldi að konur hefðu ekkert annað að tala um en matargerð.“

Meginerindi skáldskapar, í hvaða formi sem honum er valið, er að bera mennskunni vitni; hvað það er að vera manneskja í heiminum, segir Friðrik.

Allir þekkja að finnast þeir vera einir

„Myndin er stútfull af skaðlegum stöðluðum karlmennskuímyndum,“ skrifaði Þorsteinn V. Einarsson í skoðanapistli sem birtist á Vísi.„Líklega er myndin „stútfull af skaðlegum stöðluðum karlmennskuímyndum“ vegna þess að ég er hefðbundið Kalda-stríðs barn þar sem skaðlegar karlmennskuímyndir réðu ríkjum í mínum uppvexti.

En án gríns, þá finnst mér svona fullyrðing svolítið pínlegur þvættingur, soðinn upp úr froðu-fræðum, sem pólitískir rétthugsendur eru uppteknir af um þessar mundir.

Meginerindi skáldskapar, í hvaða formi sem honum er valið, er að bera mennskunni vitni; hvað það er að vera manneskja í heiminum, því fyrst erum við mannverur, en síðast kynverur,“ segir Friðrik um þessa gagnrýni. Hann segir jafnframt að börnum standi nákvæmlega sama um kyn sögupersóna, svo lengi sem þau fá áhuga á persónunni og þeim vandamálum sem hún þarf að glíma við.

„Ef myndin um Lóa hefur einhvern boðskap er hann þessi: Allir þekkja þá tilfinningu að finnast þeir vera einir í heiminum og eiga engan að sem gæti rétt þeim hjálparhönd. Öll börn ganga í gegnum svona tímabil, enda eru flest ævintýri byggð á stefinu um munaðarleysingjann. Þetta er stef sem snertir við okkur öllum. Sagan um Lóa er annars vegar saga um einstakling sem verður strandaglópur í fjandsamlegri veröld þar sem ekkert bíður hans nema dauði og tortíming, nema að honum takist hið ómögulega: að lifa af. Hins vegar er þetta saga um þá þætti sem nauðsynlegir eru svo maður eigi einhverja möguleika á að lifa af í hörðum heimi, en það er auðvitað vinátta og kærleikur, hjálpsemi og einlægni.

Ef þetta skilar sér í myndinni, og áhorfendur upplifa söguna með þessum hætti, þá hefur myndin heppnast vel. En ef meirihluti áhorfenda er á þeirri skoðun að myndin sé „stútfull af skaðlegum stöðluðum karlmennskuímyndum“ þá segir það sig sjálft að annað hvort hlýtur myndin að vera algjörlega misheppnuð eða þá að meirihluti áhorfenda hafi verið heilaþveginn. 

Persónulega lít ég svo á að staðlaðar karlmennskuímyndir séu langt frá því að vera skaðlegar; við lifum á tímum þar sem karlmenn mega helst hvorki vera neitt né gera neitt og alls ekki segja neitt, allra síst það sem þeir eru að hugsa. Hins vegar neyðumst við til þess að horfast í augu við þá staðreynd að „tæplega helmingur landsmanna erum við menn,“ eins og Stuðmenn sungu svo fagurlega hér um árið. Og karlmenn eru eins misjafnir og þeir eru margir, svona eins og fólk yfirleitt er.“

Móðir Lóa og vinkonan Lóa á flugi saman. Þær eru mest áberandi kvenpersónurnar í myndinni.
Titill myndarinnar „Lói - þú flýgur aldrei einn“ vísar til þess að þótt maður upplifi sig einmana og yfirgefinn þá er maður aldrei einn. Vinátta og hughreysting getur birst með óvæntum hætti, jafnvel frá ólíklegasta fólki.

„Farfuglarnir eru einstaklingar sem mynda samfélag. Og þótt einhver verði útundan, eins og í tilfelli Lóa, þá er ekki þar með sagt að öll von sé úti. Lói kemst í kynni við hinn tortryggna Karra, sem ætlar fyrst að notfæra sér Lóa til að lokka Skugga í gildru. En einlægni Lóa kveikir væntumþykju hjá Karra, sem fram að þessu hefur bara hugsað um sjálfan sig. Loks kemst Lói í kynni við fjölbreyttan hóp af öðrum útskúfuðum einstaklingum, sem mynda samfélag „útilegumanna“ á Paradísarvöllum. Allir þessir einstaklingar þekkja einmanaleikann og leggjast þess vegna á eitt í sameiningu um að hjálpa Lóa að ná takmarki sínu. Þetta er umfjöllunarefni sögunnar, en ekki hvort persónur séu karlkyns eða kvenkyns. Mín vegna hefðu þær allar geta verið kynsegin eða flæðigerva eða hreinlega ókynja, ef út í það er farið.“

Skortir ekki tilfinninganæmi

Friðrik er ekki sammála þeirri gagnrýni Þorsteins að Lói sýni ekki nógu tilfinningaleg viðbrögð við því að týna móður sinni. Hann segir að Lóa skorti ekki tilfinninganæmi.

„Móðir hans og Lóa vinkona hans hverfa báðar á sama tíma þegar þær fljúga suður í lönd, því þær vita ekki betur en hann sé dauður. Lói leggst í dvala í gamla hreiðrið sitt og ætlar að bíða dauðans. Hann hefur séð föður sinn myrtan af fálkanum Skugga og það áfall hefur lamað flughæfni hans. Hann veit hins vegar að móðir hans er á lífi - og þegar á líður vonar hann að hitta hana aftur að vori. Lói er einlæg, elskuleg og hjálpsöm persóna og það er nákvæmlega ekkert í fari hans sem ber vott um skort á tilfinninganæmi. Mér finnst það hins vegar bera vott um alvarlegan skort á myndlæsi að varpa slíkri fullyrðingu fram.““

Setningin skrítin á þessum stað

Nokkrir gagnrýnendur hafa gagnrýnt að Lói segir „Ég á hana“ um Lóu, hvaða skilaboð það sendi börnum um samskipti kynjanna og að það viðhorf sé ekki leiðrétt í myndinni. Þorsteinn V. Einarsson gerði þessa línu í myndinni að fyrirsögn í fyrrnefndum skoðanapistli.

„Stúlkuunginn Lóa byrjar sem heilsteypt persóna, en umbreytist fljótlega í viðfang sem fjarstödd kærasta sem strákurinn þykist eiga tilkall til,“ sagði Gunnar Theodór Eggertsson í gagnrýni sinni í Lestinni á Rás 1. Hann gagnrýnir viðhorf Lóa gagnvart Lóu vegna setningarinnar umdeildu.

„Lói gengur meira að segja svo langt að segja: Ég á hana! þegar hann óttast að annar fugl vilji stíga í vænginn við Lóu og þessu viðhorfi er aldrei beinlínis ögrað í myndinni.“

Friðrik er sammála því að setningin sé skrítin en segir að þetta hafi líklega verið vegna mistaka í þýðingu þegar myndin var talsett.

„Ég er ánægður að fá tækifæri til að svara þessari spurningu. Hér ber að taka fram að vegna þess að erlendir aðilar eru meðframleiðendur þá skrifaði ég handritið á ensku. Hér er því líklega um ákveðinn misskilning þýðanda íslenskrar talsetningar á þessari setningu að ræða, mögulega vegna breytinga á handriti í framleiðsluferlinu. Í handritinu er setning Lóa svar við ögrun Slóa, sem hann sér í ímyndun sinni birtast í frosnum polli. Slói segir „You’re dead. She is mine“ og Lói svarar „I’m still alive! And she is mine!“ - sem útleggst: Hún tilheyrir mér. En það er í fullu samræmi við loforð Lóu og Lóa í upphafi myndarinnar þegar þau heita hvort öðru að fljúga saman suður til heitu landanna, með öðrum orðum, þau ætla að verða flugfélagar - og í beinu framhaldi félagar í gegnum lífið. Í ímyndun sinni, sem Lói sér speglast í frosna pollinum, óttast hann að hún hafi svikið hann, eða að Slói ætli í það minnsta að nota tækifærið og reyna að koma sér í mjúkinn hjá henni þarna suðurfrá. Ég er sammála því að íslenska setningin er skrýtin á þessum stað. 

Ástæðan er sú að þegar breytt er smávægilega útfrá handriti á einum stað í framleiðsluferlinu, þá þarf að breyta til samræmis á öðrum stað, en þess hefur ef til vill ekki verið gætt nógu vel að. Hér er því ekki um neitt sérstakt „viðhorf“ að ræða, sem túlka má sem karlrembu, heldur aðeins mistök eða fljótfærni í framleiðsluferlinu. En ef einhverju fólki líður betur með að líta á þetta sem rembu, þá er það sársaukalaust af minni hálfu.

Friðrik segir að ungir áhorfendur missi áhugann fljótt ef efnið er lélegt.Vísir/Anton Brink

Atriðið styttra í lokaútgáfunni

Einhverjir áhorfendur, ungir sem aldnir, voru ringlaðir yfir atriði þar sem hinn stóri grimmi Skuggi virðist ræða við spegilmynd sína sem er samt kvenkyns fugl. Fuglinn virðist harðstjórinn yfir honum og rekur hann áfram í drápum. En við hvern var Skuggi að tala?

„Gaman að fá tækifæri til að svara fyrir hann Skugga, og þá sérstaklega kvikindið í speglinum. Það er reyndar mjög eðlilegt að þetta atriði myndarinnar verði illskiljanlegt að hluta, því það er mun styttra í myndinni en það var í handritinu og þar að leiðandi vantar í það ákveðinn stíganda,“ segir Friðrik. Hann gerir samt tilraun til að útskýra atriðið.

„Skuggi er einmana og hann hatar og öfundar lóurnar sem eiga náið og kærleiksríkt samfélag. Spegilmynd Skugga lifnar við í ímyndun hans: spegilmyndin er eini „félaginn“ sem hann á; þetta er innri mynd hans sjálfs, samviska hans og birtingarmynd hins skítlega og aumkunarverða eðlis sem innra með honum býr. Spegilmyndin er því einskonar innri gagnrýnandi sem nýtur þess að rífa Skugga niður. Þegar Lói uppgötvar þennan veikleika Skugga hættir hann að óttast hann og öðlast hugrekki til að ögra honum. Hann áttir sig á að hann er bæði stærri og sterkari en Skuggi, vegna þess að hann á kærleiksríkt samfélag að baklandi sem hefur skilað honum innri styrk.“Missa áhugann ef efnið er lélegt

Friðrik segir að það fylgi því ábyrgð að semja efni fyrir unga lesendur og áhorfendur. Hann vonar að myndin um Lóa láti áhorfendum líða vel í hjartanu.

„Ég hef enga trú á að sögur eða kvikmyndir séu þess umkomnar að innræta börnum og ungu fólki nokkurn „sannleika“ um lífið og tilveruna, þótt sögur geti haft sitthvað að segja þeim um lífið og tilveruna. Sagan um Lóa er svolítil dæmisaga sem ætlað er að skemmta, en í leiðinni reynir sagan að draga fram ákveðna innri baráttu, sem flestir ættu að kannast við í sjálfum sér, baráttu munaðarleysingjans fyrir því að komast á ný inn í samfélag sitt. Börn eru of heiðarleg til að nenna að sitja undir lestri bókar eða horfa á kvikmynd sem hefur ekkert að segja þeim og snertir ekki við þeim. Börn hafa líka mun víðfeðmara og hættulegra ímyndunarafl en fullorðnir og eru mun opnari, einlægari og hrekklausari.

Þess vegna er það alltaf stór ábyrgðarhluti að semja efni fyrir ungt fólk, líka vegna þess að þau eru áhorfendur og lesendur framtíðarinnar. Fái þau lélegt eða óvandað efni eru þau fljót að missa áhugann og þau er mjög snögg að finna ólyktina þegar verið er að reyna að troða í þau innrætingu. Sögur eru góðar ef þær eru ferðalag og upplifun fyrir lesanda eða áhorfanda. Bestu sögurnar eru þær sem opna augu lesenda eða áhorfenda fyrir einhverju í þeim sjálfum, sem þau vissu ekki að væri þar. En öll sköpunarverk eru tilraunir og það er ævinlega undir hælinn lagt hvort endanleg útkoma heppnist á þann hátt sem lagt var upp með. En ég vona að áhorfendur á Lóa geti hlegið svolítið saman og farið síðan heim með eitthvað gott í hjartanu.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.