Erlent

Merkel vill yngja upp í ráðherraliðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel tók við embætti kanslara árið 2005.
Angela Merkel tók við embætti kanslara árið 2005. Vísir/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur sagst vilja yngja upp í ráðherraliði Kristilegra demókrata (CDU) þegar ný ríkisstjórn CDU, CSU og Jafnaðarmannaflokksins (SDP) verður mynduð.

„Við verðum að tryggja að það sé ekki bara fólk eldra en sextugt sem komi til greina, heldur einnig yngra fólk,“ sagði Merkel í samtali við þýska fjölmiðla. Merkel þarf að skipa alls sex ráðherrastöður.

Kanslarinn, sem er leiðtogi CDU, sagði jafnframt að flokkurinn hafi þurft að gera sársaukafullar málamiðlanir til að tryggja myndun nýrrar ríkisstjórnar. Samkomulag náðist um nýjan stjórnarsáttmála í síðustu viku, en meirihluti um 460 þúsund flokksmanna SDP þarf nú að samþykkja samstarfið áður en hægt verður að kynna nýja ríkisstjórn.

Óánægja með að missa fjármálaráðuneytið

Martin Schulz, leiðtogi SDP, greindi frá því á föstudaginn að hann sækist ekki lengur eftir að verða utanríkisráðherra í nýrri stjórn, þar sem hann sagðist ekki vilja að deilur um stöðu hans myndu stofna stjórnarsamstarfinu í hættu.

BBC  greinir frá því að margir í íhaldssamari armi CDU og CSU séu óánægðir með að SPD hafi fengið fjármálaráðuneytið þegar ráðuneytin voru skipt á milli flokkanna og óttast að sá agi sem hafi einkennt fjármálaráðherratíð Wolfgang Schäuble muni heyra sögunni til.

„Ég vil segja að við höfum samþykkt stefnuna og fjármálaráðherrann getur einfaldlega ekki gert það sem honum sýnist,“ sagði Merkel til að róa taugar flokksmanna sinna.

Scholz fjármálaráðherra

Reiknað er með að Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz, borgarstjóri Hamborgar, verði nýr fjármálaráðherra Þýskalands. Hann hefur áður látið hafa eftir sér að Þýskaland geti ekki skipað öðrum þjóðum fyrir hvernig þær eigi að stjórna efnahag sínum og að þýska stjórnin hafi gert ýmis mistök á síðasta kjörtímabili.

Scholz hefur þó sagt að hann muni, líkt og Schäuble, halda fjárlögum landsins réttu megin við núllið.

Rúmir fjórir mánuðir eru nú liðnir frá þýsku þingkosningunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×