Enski boltinn

Leikmenn enska landsliðsins stóðu heiðursvörð fyrir Scholes eftir æfingu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Scholes kunni sitthvað fyrir sér í boltanum.
Paul Scholes kunni sitthvað fyrir sér í boltanum. getty
Kieron Dyer, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í fótbolta, segir í nýútgefinni bók sinni að Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska liðsins, hafi ekki verið metinn að verðleikum.

Þá er hann sérstaklega að tala um veru Scholes í enska landsliðinu þar sem hann var oft látinn spila vinstra megin á miðjunni en eins og flestir vita var hann bestur í að stýra umferðinni inn á miðri miðjunni.

„Við kunnum ekki að meta hann þannig við eyddum hæfileikum hans með því að láta hann dúsa úti vinstra megin. Þetta var bara óvirðing og einn helsti fótboltaglæpur sögunnar,“ segir Dyer.

Hann segir ekki nokkurn vafa leika á að Scholes hafi verið framar en félagar sínir í landsliðinu; Steven Gerrard og Frank Lampard, en þessir þrír eru að flestum taldir bestu miðjumenn Englands á seinni árum.

„Scholes var bestur af þessum þremur en þurfti að láta undan. Hann var algjör sérfræðingur í að nota bara eina snertingu á boltann á æfingum. Einn daginn skoraði hann þrjú eða fjögur mörk. Þá er ég ekki að tala um af stuttu færi heldur þrumuskot af 25 metrum,“ segir Dyer.

„Þegar æfingin var búin stóð restin af enska landsliðinu heiðursvörð fyrir Scholes og klappaði fyrir honum er hann gekk til búningsklefa. Ég hafði aldrei séð neitt svona áður og sá heldur aldrei aftur,“ segir Kieron Dyer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×