Erlent

Reiði í Afrin eftir limlestingu líks konu

Samúel Karl Ólason skrifar
Stórskotalið Tyrklandshers skýtur á Kúrda í Afrinhéraði.
Stórskotalið Tyrklandshers skýtur á Kúrda í Afrinhéraði. Vísir/AFP
Mikil reiði hefur blossað upp í Afrinhéraði Sýrlands eftir að uppreisnarmenn, sem studdir eru af Tyrklandi, birtu myndband af limlestu líki konu sem barðist fyrir YPG (Sýrlenska Kúrda). Uppreisnarmennirnir höfðu klætt hana úr að ofan og skorið brjóstin af líkinu. Á myndbandinu stóð hópur uppreisnarmanna í kringum líkið og ræddu hvort hún væri falleg eða ekki á meðan stigið var á hana.

Forsvarsmaður Syrian Observatory for Human Rights, samtaka sem fylgjast grannt með gangi mála í Sýrlandi í gegnum umfangsmikið net heimildarmanna, Rami Abdurrahman, sagði Washington Post að uppreisnarmennirnir sjálfir hefðu útvegað honum myndbandið sem um ræðir og stært sig af því að hafa fellt konuna í norðanverðu Afrinhéraði.



Einn af uppreisnarmönnunum sagði að Kúrdar ættu að skammast sín fyrir að senda konur á víglínurnar.

Fjöldi kvenna berjast fyrir YPG og hafa þær gert það um langt skeið. Konur tóku virkan þátt í orrustum gegn vígamönnum Íslamska ríkisins.

Uppreisnarmennirnir sem tóku myndbandið sögðu limlestinguna hafa verið refsingu fyrir atvik í apríl árið 2016 þegar meðlimir YPG keyrðu um götur Afrin með lík nokkra tuga uppreisnarmanna sem höfðu verið felldir þegar þeir gerðu árás á yfirráðasvæði Kúrda nærri Aleppo.

Samkvæmt SOHR báðust YPG afsökunar á atvikinu og sögðu líkunum hafa verið ekið um borgina í óþökk leiðtoga YPG. Það væri ekki í samræmi við boðskap og gildi þeirra.

Tyrkneski herinn réðst inn í Sýrland fyrir tveimur vikum og eru þúsundir uppreisnarmanna þeim til stuðnings. Tyrkir herja nú á Kúrda í héraðinu og reyna að uppræta starfsemi hersveita þeirra, YPG, en svæðið á landamæri að Tyrklandi. Tyrkir telja YPG hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda, PKK, en NATO og ESB líta á flokkinn sem hryðjuverkasamtök. Því neita Kúrdar og Bandaríkjamenn.


Tengdar fréttir

„Þeir óttast raddir okkar“

Fjöldi kvenna hafa gengið til liðs við YPG-sveitir Kúrda í Sýrlandi til að hefna fyrir framferði ISIS gagnvart konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×