Enski boltinn

Sex lið slógu félagaskiptametið í janúar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool keypti Virgil van Dijk frá Southampton fyrir 75 milljónir punda.
Liverpool keypti Virgil van Dijk frá Southampton fyrir 75 milljónir punda. vísir/getty
Félagaskiptaglugganum svokallaða var lokað á miðvikudaginn var. Liðin í ensku úrvalsdeildinni eyddu samtals 150 milljónum punda í leikmenn á gluggadeginum sem var afar fjörugur. Met var slegið í janúarglugganum en alls keyptu liðin í ensku úrvalsdeildinni leikmenn fyrir 430 milljónir punda. Gamla metið frá 2011 var 225 milljónir punda samkvæmt úttekt Deloitte’s Sports Business Group.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni eyddu langmest í leikmenn ef litið er á fimm stærstu deildir Evrópu. Spænska úrvalsdeildin kom næst með 250 milljónir punda. Liðin í þýsku, frönsku og ítölsku úrvalsdeildunum eyddu samtals 135 milljónum punda í leikmenn í síðasta mánuði.

Tíðindi frá Bítlaborginni

Janúarglugginn hófst og lauk með hvelli. Liverpool stal fyrirsögnunum framan af mánuði, fyrst með kaupunum á Virgil van Dijk og svo með sölunni á Philippe Coutinho til Barcelona.

Það vakti einnig mikla athygli þegar Manchester United og Arsenal skiptu á Henrikh Mkhitaryan og Alexis Sánchez. Everton styrkti sóknarlínuna með Theo Walcott og Cenk Tosun en seldi Ross Barkley til Chelsea.

Það var svo nóg um að vera á lokadegi félagaskiptagluggans. Arsenal keypti Pierre-Emerick Aubameyang frá Borussia Dortmund fyrir metverð, seldi Oliver Giroud til Chelsea sem lánaði svo Michy Batshuayi til Dortmund. Manchester City gerði Aymeric Laporte að dýrasta leikmanni í sögu félagsins, Tottenham keypti Lucas Moura frá Paris Saint-Germain og Swansea City og Stoke City opnuðu veskið upp á gátt. Og annan gluggadaginn í röð gerði Riyad Mahrez örvæntingafulla tilraun til að komast frá Leicester City en án árangurs.

Tæpur þriðjungur sló metið

Alls bættu sex af 20 liðum ensku úrvalsdeildarinnar félagaskiptametið sitt í janúarglugganum í ár, þ.e. keyptu leikmann fyrir metverð. Liverpool reið á vaðið þegar félagið keypti Van Dijk frá Southampton fyrir 75 milljónir punda. Hann er ekki bara dýrasti leikmaður í sögu Liverpool heldur einnig dýrasti varnarmaður allra tíma.

Annan félagaskiptagluggann í röð keypti Arsenal framherja fyrir metverð. Síðasta sumar borgaði félagið 46,5 milljónir punda fyrir Alexandre Lacazette og á miðvikudaginn keyptu Skytturnar Aubameyang frá Dortmund fyrir 56 milljónir punda.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, fékk ósk sína uppfyllta þegar félagið keypti Laporte frá Athletic Bilbao. Kaupverðið nam 57 milljónum punda sem gerði hann að næstdýrasta varnarmanni sögunnar. City hefur alls eytt 272 milljónum punda í leikmenn á þessu tímabili, mest allra liða í ensku úrvalsdeildinni. Og síðan Guardiola tók við sumarið 2016 hefur City keypt leikmenn fyrir 418 milljónir punda.

Liðin í fallbaráttunni létu einnig til sín taka í janúarglugganum. Southampton fékk sand af seðlum fyrir Van Dijk og nýtti tækifærið til að kaupa argentínska framherjann Guido Carrillo fyrir metverð (19 milljónir punda). Nýliðar Brighton keyptu hollenska framherjann Jürgen Locadia frá PSV Eindhoven fyrir 14 milljónir punda sem er það mesta sem félagið hefur greitt fyrir leikmann.

Þá keypti Swansea City André Ayew frá West Ham fyrir metverð (18 milljónir). Swansea fékk Ayew á frjálsri sölu sumarið 2015 og seldi hann svo fyrir metverð til West Ham ári seinna. Ayew er nú kominn aftur til Swansea þar sem hann hittir fyrir bróður sinn, Jordan Ayew.

Risa sjónvarpssamningur

Fjárhagslegt bolmagn liðanna í ensku úrvalsdeildinni jókst gríðarlega þegar nýr sjónvarpssamningur tók gildi sumarið 2016. Verðmæti hans er rúmlega fimm milljarðar punda, sem er 71% hækkun frá síðasta sjónvarpssamningi sem gilti frá 2013 til 2016.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni hafa mikið fé milli handanna og tækifæri til að láta til sín taka á félagaskiptamarkaðinum. Líka „litlu“ liðin sem hafa efni á því að taka áhættu og gera mistök í leikmannakaupum.

Síðan nýi sjónvarpssamningurinn tók gildi hafa 18 af þeim 20 liðum sem leika nú í ensku úrvalsdeildinni slegið félagaskiptamet sitt. Annað af þeim tveimur liðum sem hefur ekki gert það, West Brom, sló það sumarið 2015 þegar það keypti Salomón Rondón frá Zenit fyrir 12 milljónir punda.

Newcastle situr eftir

Hitt liðið er Newcastle United en félagaskiptamet þess frá 2005 stendur enn. Þá keypti Newcastle Michael Owen frá Real Madrid fyrir 16 milljónir punda. Það er því ekki að furða þótt stuðningsmenn Newcastle séu orðnir langþreyttir á ástandinu og vilji að Mike Ashley selji félagið.

Newcastle gerði Alan Shearer að dýrasta leikmanni heims þegar það keypti hann frá Blackburn fyrir 15 milljónir punda 1996. Nú er öldin önnur og svo virðist sem Newcastle hafi setið eftir í baráttunni á félagaskiptamarkaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×