Enski boltinn

Stóri Sam hvílir Gylfa á móti stóru liðunum en ætti að skoða tölfræðina betur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki á móti Liverpool
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki á móti Liverpool Vísir/Getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, hefur greinilega ekki kynnt sér nógu vel tölfræði íslenska landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar en okkar maður er sjaldan öflugri en í leikjum á móti stóru liðunum í enska boltanum.

Stóri Sam hvíldi Gylfa um helgina þegar Everton tapaði 5-1 á móti Arsenal. Þetta er annar leikurinn á stuttum tíma hjá Everton liðinu á móti einu af stóru liðum deildarinnar þar sem Gylfi fær ekkert að spila.

Gylfi var heldur ekkert með Everton í 2-0 tapi á móti Manchester United á nýársdag. Þetta eru einu tveir deildarleikirnir sem Gylfa hefur misst af síðan að Sam Allardyce tók við liðinu.

Markatalan í þeim er -6 eða 1-7 sem ættu nú að gefa stjóranum einhver skilaboð þegar kemur að afleiðingunum að hvíla íslenska landsliðsmanninn sem stóð sig vel í 2-1 sigri á Leicester í leiknum á undan.





Gylfi skorar hér beint úr aukaspyrnu á móti Manchester United á Old Trafford.Vísir/Getty
 

Gylfi hefur skorað 4 mörk og gefið 3 stoðsendingar á móti Chelsea á síðustu árum, hann er með 4 mörk og 1 stoðsendingu á móti Liverpool, hefur skorað 3 mörk og gefið 3 stoðsendingar í leikjum á móti Manchester United, er með 3 mörk og 1 stoðsendingu á móti Manchester City og þá hefur Gylfi boðið upp á 2 mörk og 2 stoðsendingar í leikjum á móti Arsenal.

Það er helst að okkar maður hafi verið í vandræðum á móti sínum gömlu félögum í Tottenham en Gylfi er samt með 2 mörk í 8 leikjum á móti Spurs.

Næsti leikur Everton á móti einu af stóru liðum deildarinnar er leikur á móti Manchester City en hann fer ekki fram fyrr en í loka mars.

Þangað til mun Everton spila við liðin á hinum enda vallarins og þar er mikilvægt fyrir liðið að safna stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×