Enski boltinn

Segja Lemar vilja fara til Liverpool eftir að hann hafnaði nýjum samningi hjá Mónakó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Lemar.
Thomas Lemar. Vísir/Getty
Liverpool mun reyna að kaupa Thomas Lemar frá Mónakó í sumar en Independent hefur heimildir fyrir að þessi 22 ára leikmaður vilji helst komast til Liverpool.

Thomas Lemar hafnaði nýjum samingi frá Mónakó en Mónakó vildi ekki selja Liverpool hann fyrir 78 milljónir punda síðasta sumar og Frakkarnir þvertóku líka fyrir það að leyfa honum að fara í janúarglugganum.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sá Lemar fyrir sér koma inn þegar enska félagið seldi Philippe Coutinho til Barcelona en Mónakó vildi alls ekki missa leikmanninn á miðju tímabili.

Arsenal var nálægt því að kaupa Thomas Lemar í lok ágúst sem hefði þá þýtt að Alexis Sanchez færi til Manchester City. Ekkert varð þó af því af því að Lemar vildi ekki fara til Arsenal.

Samkvæmt frétt Independent þá er Liverpool óskafélag hans og því líklegt að hann endi á Anfield næsta sumar þar sem að bæði Liverpool og hann sjálfur vilja sjá það gerast.

Thomas Lemar er með 2 mörk og 5 stoðsendingar í 16 leikjum í frönsku deildinni í vetur en hann var með 9 mörk og 11 stoðsendingar í 34 leikjum á tímabilinu á undan.

Thomas Lemar í leik með franska landsliðinu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×