Enski boltinn

Riyad Mahrez hættur í fýlu og mætir á æfingu í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það sést eitthvað meira en þetta af Riyad Mahrez á æfingasvæði Leicester í dag.
Það sést eitthvað meira en þetta af Riyad Mahrez á æfingasvæði Leicester í dag. Vísir/Getty
Riyad Mahrez hefur ekki æft né spilað með Leicester síðan að félagið neitaði að selja hann til Manchester City á síðustu dögum félagsskiptagluggans. Alsíringurinn ætlar hinsvegar að mæta í vinnuna í dag.

Sky Sports segir frá því að Riyad Mahrez muni koma á æfingu hjá Leicester í dag og sé tilbúinn að spila á móti Manchester City um helgina.

Mahrez hvarf eftir að Leicester hafnaði tilboði Manchester City og enginn hjá félaginu gat náð í hann. Þetta var fjórði glugginn í röð þar sem hann var orðaður við eitt af stóru félögunum í ensku úrvalsdeildinni en Leicester vildi fá miklu meira fyrir hann en City var tilbúið að borga.

Síðasti leikur Riyad Mahrez með Leicester liðinu var í 2-0 sigri á Watford 20. janúar en hann skoraði þá seinna mark liðsins. Riyad Mahrez er með 8 mörk og 8 stoðsendingar í 24 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.







„Ég held að Riyad verði ekki með í leiknum á móti Manchester City á laugardaginn,“ sagði Claude Puel, knattspyrnustjóri Leicester, á blaðamannfundi í gær. Hvort þessar fréttir breyti því verður að koma í ljós.

Claude Puel talaði hinsvegar jákvætt um leikmanninn þrátt fyrri stælana. „Ég vona að hann komi hausnum á réttan stað, snúi aftur og leggi sig fram. Besta leiðin fyrir hann er að koma til baka og njóta fótboltans,“ sagði Claude Puel á fundinum í gær.



 

 Í síðustu sex leikjum sínum með Leicester hefur Riyad Mahrez komið að sex mörkum (3 mörk og 3 stoðsendingar). Liðið fékk sjö stig í síðustu þremur leikjum sínum með hann innanborðs en aðeins eitt stig í tveimur síðustu leikjum án hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×