Fótbolti

Fimmtugur fótboltamaður með nýjan atvinnumannasamning í vasanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kazuyoshi Miura er komin með ansi mörg grá hár.
Kazuyoshi Miura er komin með ansi mörg grá hár. Vísir/Getty
Kazuyoshi Miura heldur áfram að bæta við metið sitt og er hvergi nærri hættur í boltanum þótt að hann sé kominn á sextugsaldurinn.

Miura heldur upp á 51. árs afmælið sitt í næsta mánuði en hefur nú skrifað undir nýjan samning við b-deildarliðið Yokohama FC.

Miura fæddist 26. febrúar 1967 en sem dæmi er Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fæddur á sama ári og það er einnig Paul Gascoigne eða Gazza eins og hann er jafnan kallaður.

Næsta tímabil verður það 33. á fótboltaferli Miura en það fyrsta var með brasilíska félaginu Santos árið 1986.

Kazuyoshi Miura bætti 52 ára gamalt met Sir Stanley Matthews á síðasta ári þegar hann varð elsti maðurinn til að skora mark í keppnisleik.

Miura lék á sínum tíma með stórum félögum eins og Genoa á Ítalíu og Dinamo Zagreb í Króatíu en hann hefur spilað með Yokohama frá árinu 2005.

Landsliðsferillinn var líka glæsilegur en Kazuyoshi Miura spilaði 89 landsleiki og skoraði 55 mörk á árunum 1990 til 2000. Hann er næstmarkahæsti landsliðsmaður Japans frá upphafi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×