Erlent

Páfi ætlar að hitta fórnarlömb Pinochet í Síle

Kjartan Kjartansson skrifar
Frans páfi er frá Argentínu. Leynilögreglan í Síle vann með einræðisstjórnum Argentínu og Brasilíu við að berja niður andóf.
Frans páfi er frá Argentínu. Leynilögreglan í Síle vann með einræðisstjórnum Argentínu og Brasilíu við að berja niður andóf. Vísir/AFP
Frans páfi ætlar að hitta tvö fórnarlömb einræðisstjórnar Augusto Pinochet þegar hann heimsækir Síle í næstu viku. Fundurinn var ekki á upphaflegri dagskrá heimsóknarinnar.

Talsmaður Páfagarðs staðfestir að Frans ætli að hitta fólk sem urðu fyrir barðinu á harðstjórn Pinochet á 8. áratug síðustu aldar á fimmtudag í næstu viku, að því er Reuters-fréttastofan segir.

Pinochet rændi völdum af lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn Salvadors Allende í september árið 1973. Einræðisstjórn hans, sem naut stuðnings vestrænna ríkja eins og Bandaríkjanna og Bretlands, var við völd til 1990. Einræðisherrann lést árið 2006.

Talið er að um þrjú þúsund manns hafi verið myrtir eða „látnir hverfa“ og þúsundir til viðbótar hafi verið pyntaðir eða farið í útlegð, þar á meðal Michelle Bachelet, núverandi forseti Síle.

Fleiri en hundrað leynilögreglumenn frá stjórnartíð Pinochet voru dæmdir í fangelsi vegna mannréttindabrota í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×