Erlent

Giske segir af sér sem varaformaður Verkamannaflokksins

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Giske hefur átt sæti á norska þinginu frá árinu 1997.
Giske hefur átt sæti á norska þinginu frá árinu 1997. Vísir/AFP

Trond Giske hefur ákveðið að snúa ekki aftur í stól varaformanns norska Verkamannaflokksins í kjölfar ásakana um kynferðislegt áreiti. NRK greinir frá. 

Giske ákvað að stíga tímabundið til hliðar fyrsta janúar eftir að hann var sakaður um að hafa áreitt stjórnmálakonu í ungliðahreyfingu flokksins kynferðislega. Í kjölfarið birtust fleiri ásakanir á hendur hans. Þá sagðist Giske vona að með því að stíga til hliðar tímabundið gæti hann fengið svigrúm til að svara fyrir ásakanirnar sem væru að hluta til ekki á rökum reistar.

Nú hefur Trond Giske gefið út yfirlýsingu þess efnis að hann komi ekki til með að snúa aftur í stól varaformannsins. Í færslu á Facebook síðu sinni segist hann hafa tekið þessa ákvörðun í samráði við sína nánustu fjölskyldu.

„Helsta ástæða þess að ég tók þessa ákvörðun er að það er ómögulegt fyrir mig og fjölskylduna mína að halda áfram undir því álagi sem við höfum verið undir síðustu vikur. Byrðin er of mikil en þetta hefur haft áhrif á fólkið sem ég elska mest sem valdi ekki líf stjórnmálamannsins,“ skrifar Giske.

Hefur átt sæti á norska þinginu frá 1997

Þá segist hann hlakka til að segja sína hlið af málunum. Sökum veikinda sinna hafi hann ekki getað gert það enn sem komið er. „Ég mun svara öllum spurningum og leiðrétta það sem er rangt. Ég biðst aftur afsökunar á því sem ég hef gert sem hafa valdið öðrum óþægindum,“ segir hann.

Giske hefur átt sæti á norska þinginu frá árinu 1997. Hann hefur á ferli sínum verið kirkju- og menntamálaráðherra, menningarmálaráðherra og viðskipta- og iðnaðarmálaráðherra.

Verkamannaflokkurinn er stærsti flokkurinn á norska þinginu en er í stjórnarandstöðu. Hann Hlaut 27,4 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×