Erlent

Létust við sjálfsmyndatöku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ericeira er vinsæll viðkomustaður á vesturströnd Portúgals.
Ericeira er vinsæll viðkomustaður á vesturströnd Portúgals. Vísir/getty
Karl og kona létust þegar þau reyndu að taka sjálfsmynd á vinsælum ferðamannastað í Portúgal. Talið er að fólkið hafi misst jafnvægið er það hallaði sér afturábak til að ná góðri mynd af ströndinni fyrir neðan.

Portúgalskir miðlar segja að parið, sem talið er vera frá Bretlandi og Ástralíu, hafi látið lífið nærri ströndinni Praia dos Pescadores, eða Sjómannaströndinni svokölluðu, við ferðamannabæinn Ericeira. Bærinn er þekktur fyrir fallegar stendur og því vinsælt myndefni þeirra þúsunda ferðamanna sem fara um vesturströnd landsins á hverju ári.

Haft er eftir talsmanni björgunarsveitanna að þær telji nokkuð ljóst að parið hafi dottið aftur fyrir sig og yfir vegg sem á að varna því að slíkt geti gerst. Farsími sem fannst ofan á veggnum gefi til kynna að þau hafi verið að taka sjálfsmynd.

Talið er að þau hafi hrapað um 30 metra og líklega látist samstundis þegar þau lentu á ströndinni fyrir neðan. Lík þeirra fundust í gærmorgun.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ferðamenn hafa hrapað til dauða á þessu svæði. Stjórnvöld kanna nú hvernig auka megi öryggið á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×