Erlent

Páfinn fordæmir "blóðbaðið“ í Sýrlandi í páskaávarpi

Þórdís Valsdóttir skrifar
„Í dag grátbiðjum við um frið um allan heim og byrjum áhinu ástkæra Sýrlandi sem þjáðst hefur lengi og þar sem fólk er dauðþreytt á því sem virðist vera endalaust stríð,“ sagði Frans páfi í sérstöku hátíðarávarpi sínu í tilefni páska. Þá biðlaði hann einnig til Guðs að græða sár í Suður Súdan og Lýðveldinu Kongó og hvatti til samræðna á Kóreuskaga. Frans páfi hefur frá upphafi ferils síns fordæmt átökin í Sýrlandi. BBC greinir frá.

Páfinn ávarpaði tugi þúsunda manna af svölum basilíkunnar við Sankti-Péturstorgi í Vatíkaninu í dag þar sem öryggisgæsla var verulega hert. Allir þeir sem hugðust hlýða á páfann þurftu að fara í gegnum málmleitartæki og þá var einnig leitað í töskum allra sem fóru inn á torgið.

Frans páfi sagðist í ávarpi sínu vona að „ljós hins upprisna Jesú Krists lýsi á samvisku allra stjórnmála- og hernaðarleiðtoga svo að skjótur endir fáist á blóðbaðinu sem hefur átt sér stað og að mannréttindalög verði virt“. Þá sagðist hann einnig vonast eftir því að ráðstafanir verði gerðar til þess að auðvelda aðgengi að aðstoð.

Páfinn hefur lengi talað fyrir réttindum þeirra sem flúið hafa heimili sín. „Megi samhugur ríkja meðal allra þeirra sem neyðst hafa til þess að fara frá heimalöndum sínum og skorta lífsnauðsynjar,“ sagði páfinn í dag. Hann sagði einnig að heimurinn mætti ekki gleyma fórnarlömbum átaka, sérstaklega börnum.

Þá hvatti hann einnig til sátta í Ísrael eftir að sextán palestínskir mótmælendur létu lífið og fjórtán hundrað særðust í einni blóðugustu árás á mótmælendur á Gaza-svæðinu á síðari árum.


Tengdar fréttir

Þjóðarsorg í Palestínu

Þá hefur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallað eftir óháðri rannsókn vegna dauðsfallanna í blóðugum átökum við landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×