Innlent

Lögreglustjóri vó að æru og persónu Aldísar sem fær miskabætur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aldís Hilmarsdóttir
Aldís Hilmarsdóttir Fréttablaðið/Eyþór
Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Aldísi Hilmarsdóttur 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna þeirrar ákvörðunar lögreglustjóra að færa hana til í starfi. Héraðsdómur hafði áður sýknað ríkið af kröfum Aldísar.

Aldís, sem var yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, stefndi íslenska ríkinu vegna þeirrar ákvörðunar Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að færa sig til í starfi í janúar árið 2016.

Tilfærsluna taldi Aldís jafngilda ólögmætri brottvikningu úr starfi. Krafðist hún ógildingar ákvörðunarinnar og 126 milljóna króna í skaðabætur, bæði vegna fjárhagslegs tjóns og annars. Þá sakaði hún meðal annars Sigríði Björk um einelti á vinnustað þar sem hún hafi meðal annars lesið upp úr tölvupóstum Aldísar fyrir framan annað starfsfólk.

Aldís áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem kvað upp dóm sinn í dag. Þar segir að við ákvörðun Sigríðar Bjarkar að færa Aldísi til í starfi hafi Sigríður mátt vita að ákvörðunin væri til þess fallin að vera meiðandi fyrir Aldísi, sem í áranna rás hafði unnið sig til metorða innan lögreglunnar, líkt og það er orðað í dómi Hæstaréttar. Vó ákvörðunin því að æru Aldísar og persónu.

Var íslenska ríkið dæmt til að greiða Aldísi 1,5 milljónir króna í miskabætur, auk vaxta sem og 366.720 krónur í fjártjón þar sem innlögn hennar á Heilsustofnun NLFÍ, sem hún greiddi fyrir, hafi verið bein afleiðing af ákvörðun Sigríðar Bjarkar.

Íslenska ríkið var hins vegar sýknað af kröfu Aldísar um að ákvörðun Sigríðar Bjarkar um tilfærslu Aldísar í starfi yrði gerð ógild auk þess sem að kröfu hennar um að ríkið greiddi henni 126 milljónir í skaðabætur var vísað frá dómi.

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.


Tengdar fréttir

Aldís áfrýjar til Hæstaréttar

Aldís Hilmarsdóttir mun láta á það reyna fyrir Hæstarétti hvort ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að færa hana til í starfi hafi verið réttmæt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×