Skipum bandaríska flotans er nú siglt í átt að Kóreuskaga. Ákvörðunin er sögð tekin vegna vaxandi ógnar vegna kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreu.
Í frétt BBC kemur fram að Carl Vinson flotadeildin samanstandi af einu flugmóðurskipi og þremur herskipum til viðbótar. Skipin eru meðal ananrs búin sérstökum eldflaugavarnarkerfum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt Bandaríkin reiðubúin að bregðast einhliða við ógninni frá Norður-Kóreu. Segir talsmaður hersins að skeytingarlausar og óábyrgar eldflaugatilraunir og sókn Norður-Kóreustjórnar í að komast yfir kjarnavopn vera helstu ógnina í heimshlutanum.
Skipin áttu upphaflega að sigla til Ástralíu en var þess í stað gert að sigla frá Singapúr á hafsvæði norðar, vestarlega í Kyrrahafi þar sem skipin tóku nýverið þátt í æfingum með flota suður-kóreska hersins.
Her Norður-Kóreu hefur framkvæmt röð tilrauna með eldflaugaskotum og segja sérfræðingar að hann nálgist það óðfluga að þróa kjarnaodd og eldflaugar sem geti náð alla leið til vesturstrandar Bandaríkjanna.
Bandaríkjastjórn hefur þrýst á stjórnvöld í Kína að beita áhrifum sínum og stemma stigu við þróunina í Norður-Kóreu, en Kínastjórn hefur verið treg til þess, meðal annars af ótta við að fall stjórnar Norður-Kóreu myndi leiða til mikils straums norður-kóreskra flóttamanna til Kína.

