Nicolás Maduro, forseti Venesúela, segir þingið nauðsynlegt til að koma á friði í landinu eftir marga mánuði af mótmælum og átökum. Stjórnarandstaðan vill hins vegar meina að þingið sé tilraun forsetans að ríghalda í þau völd sem hann hefur.
545 manns sitja í hinu nýkjörna stjórnlagaþingi og þar á meðal eru eiginkona Maduro og sonur hans. Þá var Delcy Rodriguez, fyrrverandi utanríkisráðherra Venesúela og náin samstarfskona forsetans, kjörinn forseti þingsins. Í upphafsræðu sinni sagði hún stjórnarandstæðuna vera fasíska og varaði alþjóðasamfélagið við því að skipta sér af málum þar í landi.

Nokkrir særðust í átökunum í dag þegar lögreglan reyndi að hafa hemil á mótmælendum, sem voru nokkur hundruð talsins. Á öðrum stöðum í Caracas, höfuðborg landsins, hittust stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og fögnuðu nýja þinginu. Margir veifuðu myndum af Hugo Chávez, fyrrverandi forseta landsins sem lést árið 2013 og byltingarhetjunni Simón Bolivar.