Innlent

Sveitarstjórn Norðurþings hafnar fjármögnun flugklasaverkefnis

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá höfninni á Húsavík.
Frá höfninni á Húsavík.
Sveitarstjórn Norðurþings hafnar því að fjármagna flugklasaverkefni Air66N og Markaðsstofu Norðurlands sem hefur það markmið að þrýsta á yfirvöld um að dreifa ferðamönnum betur um landið og byggja upp fleiri áfangastaði fyrir millilandaflug en Keflavík. Telur sveitarstjórn ekki rétt að einstök bæjarfélög fjármagni þessa vinnu.

Sveitarstjórn Norðurþings fékk sams konar erindi á vormánuðum um að koma að fjármögnun verkefnisins. Því var hafnað á þeim tíma. Á síðasta fundi sveitarstjórnar var tekið fyrir nýtt bréf frá flugklasanum þar sem Norðurþing var náðarsamlegast beðið um að endurskoða afstöðu sína. Norðurþing hefur haft mikinn hag af ferðamönnum og með bættu millilandaflugi um Norðurland gæti Norðurþing fengið til sín fleiri ferðamenn en verið hefur.

Sveitarstjórn hafnaði erindinu á nýjan leik og samþykkti bókun þar sem sveitarstjórn tekur undir mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Bendir sveitarfélagið á að tekjur ríkis af Keflavíkurflugvelli séu miklar sem skapar góðar forsendur til að fjármagna þróunarstarf og uppbyggingu alþjóðaflugs á öðrum svæðum, þar með talið á Akureyrarflugvelli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×