Manchester City fullkomnaði frábæra viku með 0-6 útisigri á Watford í ensku úrvalsdeildinni í dag. Sergio Agüero skoraði þrennu í leiknum.
City vann Liverpool 5-0 síðasta laugardag, Feyenoord 0-4 í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn og Watford 0-6 í dag. Fimmtán mörk í þremur leikjum hjá lærisveinum Peps Guardiola.
Agüero elskar að spila á móti Watford og gerði þrennu í dag. Þetta var sjötta þrenna hans í ensku úrvalsdeildinni.
Gabriel Jesus, Nicolás Otamendi og Raheem Sterling voru einnig á skotskónum fyrir City í dag.
Með sigrinum komst City á topp deildarinnar. Watford er hins vegar um miðja deild en tapið í dag var fyrsta tap liðsins á tímabilinu.

