Innlent

Finnst óþægilegt að reiða fram posann strax í sjúkrabílnum

Sveinn Arnarsson skrifar
Slysahætturnar leynast víða á ferðamannastöðum á Suðurlandinu.
Slysahætturnar leynast víða á ferðamannastöðum á Suðurlandinu. vísir/pjetur
Sjúkraflutningamenn á Suðurlandi eru settir í þá stöðu að rukka erlenda ferðamenn um greiðslu fyrir notkun sjúkrabíls á meðan á ferðinni stendur. Þetta finnst sjúkraflutningamönnunum óþægilegt og vilja helst að Heilbrigðisstofnunin sjálf sjái um að rukka ósjúkratryggða fyrir ferð með sjúkrabílum.

Samkvæmt reglugerð fyrir ósjúkratryggða skal greiða gjald til rekstraraðila sjúkraflutninga. Er upphæðin 40.600 krónur. Einnig þarf að greiða 2.500 króna gjald til eiganda bifreiðarinnar á hvern ekinn kílómetra. Þar sem umdæmi HSU er nokkuð víðfeðmt getur reikningurinn sem sjúkraflutningamennirnir þurfa að rukka orðið talsvert hár.

„Við höfum bent á þetta áður en ekkert hefur breyst í þessum efnum,“ segir Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. „Það er óþægilegt fyrir sjúkraflutningamenn sem eru að sinna sjúklingum og vinna sér inn traust þeirra að þurfa í sömu andrá að taka upp posa og rukka ferðamenn um þetta.“

Sjúkraflutningamenn á Suðurlandi hafa lent í því að fá tilkynningu um slasaðan ósjúkratryggðan einstakling við Gullfoss sem þurfti til Reykjavíkur. Klukkan fer í gang við útkall og þarf bíllinn að fara frá Selfossi. Síðan þegar búið er að sinna sjúklingi á vettvangi er hann fluttur til Reykjavíkur. „Tíminn heldur samt áfram að ganga þar til bíllinn er kominn aftur á Selfoss og þurfum við því að áætla þann aksturstíma. Því erum við að rukka fjóra tíma fyrir svona,“ bætir Stefán við.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, segir þetta verklag til hægðarauka fyrir stofnunina. „Gjald fyrir sjúkraflutninga erlendra ferðamanna, hjá HSU, er innheimt samkvæmt gjaldskrá. Til þæginda fyrir bæði þjónustuþega og fyrir okkur, er innheimt gjald af sjúklingi fyrir sjúkraflutning á staðnum, eins og aðra heilbrigðisþjónustu HSU,“ segir Herdís. „Posarnir eru einnig notaðir til að spara öllum fyrirhöfn, meðal annars við að senda reikninga eftir á til erlendra ferðamanna.“

Stefán segir það ekkert óeðlilegt að greitt sé fyrir slíka þjónustu. Það sé bara erfitt fyrir einstaklinga á vettvangi að þurfa að taka við greiðslu úr hendi skjólstæðinga sinna. „Það er einnig orðið verklag hjá okkur að við þurfum að gera fólki grein fyrir kostnaðinum við þjónustuna. Það þarf að vita að þjónustan er ekki ókeypis,“ segir Stefán. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×