Eftir jafnteflið við Manchester City í dag lýsti Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, yfir ást sinni á félaginu og sagði að það kæmi fljótlega í ljós hvort hann verði áfram við stjórnvölinn hjá því eða ekki.
„Þú gast séð að leikmennirnir voru vonsviknir með að lenda 1-2 undir. En þeir gáfu allt í það að koma til baka. Jafnteflið var það minnsta sem við þurftum í dag. Það var mikilvægt að tapa ekki fyrir sálartetrið,“ sagði Wenger sem hefur legið undir mikilli gagnrýni að undanförnu.
Skytturnar sitja í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 51 stig, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti. Það verður því erfitt verk fyrir þá að enda í fjórum efstu sætum deildarinnar.
„Við erum í harðri baráttu um að komast í topp fjóra. Ég er fagmaður og hef alltaf sýnt mikla hollustu,“ sagði Wenger.
„Ég elska þetta félag. Ég veit ekki hversu lengi ég verð hér en ég hugsa skýrt sem er það mikilvægasta. Ég tilkynni fljótlega um ákvörðun mína.“
Wenger: Elska þetta félag

Tengdar fréttir

Jafnt í stórleiknum á Emirates
Arsenal og Manchester City skildu jöfn, 2-2, þegar liðin mættust á Emirates í síðasta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.