Enski boltinn

Wenger leikjahæstur frá upphafi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ferguson og Wenger elduðu grátt silfur saman í mörg ár
Ferguson og Wenger elduðu grátt silfur saman í mörg ár vísir/getty
Arsene Wenger verður leikjahæsti stjóri ensku úrvalsdeildarinnar í dag þegar hann stýrir Arsenal gegn West Bromwich Albion í lokaleik ársins.

Leikurinn verður sá 811. sem Wenger stýrir, en hann jafnaði met Sir Alex Ferguson í sigrinum á Crystal Palace í vikunni.

„Við höfum sömu ástríðuna, en mismunandi persónuleika,“ sagði Wenger í viðtali við heimasíðu Arsenal í tilefni áfangans.

„Ég ber mikla virðingu fyrir hvað hann gerði og hversu mikið hann vildi alltaf vinna. Það er mikið afrek að hafa enst svona lengi, alveg eins og það var hjá honum.“

Síðasti leikur Ferguson með Manchester United var einmitt á The Hawthorns, þar sem leikur dagsins fer fram. Leikurinn var mjög fjörugur og endaði í 5-5 jafntefli sem tryggði United Englandsmeistaratitilinn árið 2013.

„Sama hversu lengi þú ert í þessum bransa þá getur þú aldrei séð fyrir hvað muni gerast. Þess vegna höldum við áfram, við viljum ná að temja þetta dýr en það tekst þó aldrei,“ sagði Arsene Wenger.

Leikur WBA og Arsenal er í beinin útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsesnding klukkan 16:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×