Erlent

Yfirvöld meina rannsakanda SÞ að koma til Mjanmar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Róhingjabörn á göngu í Kutupalong-flóttamannabúðunum.
Róhingjabörn á göngu í Kutupalong-flóttamannabúðunum. Nordicphotos/AFP

Rannsakandi Sameinuðu þjóðanna, sem senda átti til Mjanmar, fær ekki að koma inn fyrir landamærin. Rannsakandinn, Yanghee Lee, átti að heimsækja Asíuríkið skömmu eftir áramót til að kanna meint mannréttindabrot af hálfu stjórnvalda, einkum ofsóknir og árásir sem beinast gegn Róhingjum í Rakhine-héraði.

Í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni sagði að Lee væri bannað að koma til landsins þar sem hún væri ekki hlutlaus. Sjálf sagði Lee í gær að ákvörðunin benti til þess að „eitthvað hrikalega ömurlegt“ væri að eiga sér stað í Rakhine.

Lee heimsótti Mjanmar síðast í júlí. Þá sagðist hún hafa áhyggjur af meðferð Róhingja í héraðinu. Mánuði síðar braust ofbeldi þar út eftir að skæruliðar úr þjóðflokknum réðust á lögreglustöð.

Herinn svaraði með því að ráðast gegn Róhingjum, ekki einungis skæruliðum heldur einnig almennum borgurum. Hefur mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna sagt frá því að Róhingjar hafi verið drepnir án dóms og laga og þorp þeirra brennd til grunna. Í síðustu viku greindu yfirvöld í Mjanmar frá fundi fjöldagrafar í einu þorpi Róhingja.

Alls hafa rúmlega 650.000 Róhingjar­ flúið til Bangladess frá því í ágúst. Er um að ræða tvo þriðju hluta allra Róhingja.

„Það ríkti mikil von um að Mjanmar gæti orðið frjálst lýðræðisríki. Þessi ákvörðun veldur mér miklum vonbrigðum,“ sagði Lee við BBC í gær og bætti við að hún vonaðist til þess að yfirvöld myndu endurskoða afstöðu sína.

„Það treystir henni enginn,“ sagði Zaw Htay, talsmaður ríkisstjórnarinnar, við AFP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×