Erlent

Segja Trump ekki hafa sagt alla innflytjendur frá Haítí vera með alnæmi

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Hvíta húsið þvertekur fyrir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi sagt að allir innflytjendur frá Haítí væru með alnæmi. New York Times segir forsetann hafa haldið þessu fram á ríkisstjórnarfundi í júní. Þar á hann einnig að hafa sagt að innflytjendur frá Nígeríu myndu „aldrei fara aftur í kofana sína“ eftir að hafa komið til Bandaríkjanna og að Afganistan væri fullt af hryðjuverkamönnum.

Sarah Huckabee Sanders, talskona Hvíta húsins, gagnrýndi New York Times harðlega í dag og sagði að allir sem hefðu verið á fundinum segðu Trump ekki hafa látið þessi ummæli falla. Hún sagði þá „neita þessum svívirðilegu ásökunum og það er sorglegt og lýsandi að New York Times skyldi prenta þessar lygar þeirra nafnlausu heimildamanna,“ sagði Sanders samkvæmt frétt CNN.

Á umræddum fundi var verið að ræða fjölda innflytjenda sem hefðu fengið landvistarleyfi í Bandaríkjunum á árinu.

Samkvæmt umfjöllun Times var Trump reiður yfir þeim fjölda og sagði að verið væri að gera lítið úr loforði hans að takmarka fjölda innflytjenda. Blaðamenn Times ræddu við sex manns sem annað hvort voru á fundinum eða vissu hvað fór þar fram. Tveir þeirra sögðu Trump hafa látið umrædd orð falla en aðrir sögðust ekki muna eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×