Erlent

Allsherjarþing SÞ fjallar um stöðu Jerúsalem eftir ákvörðun Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Ekki er algengt að allsherjarþing SÞ komi saman til aukafunda.
Ekki er algengt að allsherjarþing SÞ komi saman til aukafunda. Vísir/AFP
Sérstakur fundur allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels verður haldinn á fimmtudag. Ákvörðunin hefur valdið óróa í Miðausturlöndum og er talin grafa undan friðarumleitunum á milli Ísraela og Palestínumanna.

Nokkur araba- og múslimaríki fóru fram á fundinn eftir að Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu til að fella tillögu Egypta um afturköllun ákvörðunarinnar í gær. Hin fjórtán ríkin sem eiga sæti í ráðinu greiddu atkvæði með tillögunni.

Nú munu fulltrúar 193 ríkja allsherjarþingsins greiða atkvæði um tillögu þar sem þess er krafist að ákvörðun Trump verði snúið við, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Riyad Mansour, sendifulltrúi Palestínumanna við SÞ, segist vonast til þess að tillagan fái yfirgnæfandi stuðning í allsherjarþinginu.

Aðeins tíu sinnum áður hefur allsherjarþingið komið saman til sérstaks aukafundar. Síðast gerðist það árið 2009. Þá var umfjöllunarefnið landnám Austur-Jerúsalem og landsvæða Palestínumanna. Ályktanir allsherjarþingsins eru ekki lagalega bindandi.


Tengdar fréttir

Segir ákvörðun Trump valda áhyggjum og vonbrigðum

Guðlaugur Þór Þórðarson óttast að ákvörðun Donald Trump að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis kunni að hafa neikvæð áhrif á friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×