Innlent

Vill að tekið sé á málunum sem felldu ríkisstjórnina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, sjást hér fyrir miðri mynd í þingsal. Þau greiddu bæði atkvæði gegn því að flokkurinn færi í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Framsókn og Sjálfstæðisflokk.
Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, sjást hér fyrir miðri mynd í þingsal. Þau greiddu bæði atkvæði gegn því að flokkurinn færi í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Framsókn og Sjálfstæðisflokk. vísir/anton brink
„Mér fannst ekki komin nógu áþreifanleg niðurstaða út úr óformlegu viðræðunum til að ég bæri traust til þess að við gætum stigið þetta skref,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, aðspurður um það hvers vegna hann greiddi atkvæði gegn því á þingflokksfundi í dag að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn.

Meirihluti þingflokksins samþykkti að hefja slíkar viðræður og aðspurður kveðst Andrés Ingi ekki ósáttur við þá niðurstöðu.

„Nei, ég bara virði afstöðu félaga minna þó að ég sé ósammála þeim og treysti þeim til þess að vinna vel úr stöðunni,“ sgeir Andrés Ingi.

Treystirðu alveg formanninum, Katrínu Jakobsdóttur, til að fara í þessar viðræður og ná fram góðum málefnasamningi?

„Ef einhver getur það þá er það forysta VG,“ segir Andrés.

Hann segir það vera stór skref fyrir alla að stíga inn í þetta samtal við Sjálfstæðisflokkinn en spurður út í hvort það sé eitthvað ákveðið atriði sem hann hefði viljað fá skýrari svör við segir Andrés:

„Nei, ekkert tiltekið en ég hefði viljað hafa einhver skýr atriði sem væri komin skýr niðurstaða í frekar en að vera að renna af stað í þetta núna í trausti þess að Bjarni Ben verði móttækilegur fyrir uppástungum Vinstri grænna í viðræðunum.“

Treystir ekki Sjálfstæðisflokknum

Það er ljóst að það er afar umdeilt að Vinstri græn skuli fara í þessar viðræður og telja margir kjósendur sig illa svikna, eins og lesa má nánar um hér á Vísi.

Telur Andrés að það muni hafa slæm áhrif á flokkinn að fara í þessar viðræður yfirhöfuð?

„Ég á ósköp erfitt með að meta það en ég held að það hefði hjálpað að hafa þessar áþreifanlegu niðurstöður á þessum tímapunkti til að geta sýnt fólki betur fram á réttlætingu að stíga þetta skref núna.“

Finnst þér þá ekki nóg það sem hefur komið fram í fjölmiðlum um að flokkarnir séu samstíga í því að hér þurfi að fara í innviðauppbyggingu og tryggja stöðugleika á vinnumarkaði? Er það ekki nógu áþreifanlegt?

„Mér finnst að það þurfi líka að taka á málunum sem felldu ríkisstjórnina, kynferðisbrotum og útlendingamálum, með afgerandi hætti,“ segir Andrés.

Hann kveðst munu taka afstöðu til málefnasamnings flokkanna þegar og ef af honum verður.

„Ég lít á hann með opnum en gagnrýnum huga.“

Andrés segist, líkt og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG sem einnig kaus gegn því að hefja viðræður, ekki bera traust til Sjálfstæðisflokksin.

„Þess vegna hefði ég viljað hafa eitthvað fast í hendi.“


Tengdar fréttir

Treystir ekki Sjálfstæðisflokknum

Rósa Björk Brynjólfsdóttir er annar tveggja þingmanna VG sem greiddi atkvæði gegn stjórnarmyndunarviðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×