Erlent

Hneyksli skekur súmóheiminn

Kjartan Kjartansson skrifar
Harumafuji (t.v.) er sagður hafa lamið félaga sinn í höfuðið með bjórflösku í ölæði.
Harumafuji (t.v.) er sagður hafa lamið félaga sinn í höfuðið með bjórflösku í ölæði. Vísir/AFP
Áflog á milli tveggja drukkinna súmóglímukappa enduðu með því að annar þeirra höfuðkúpubrotnaði. Uppákoman er nýjasta hneykslið sem skekur súmóglímuheiminn í Japan þar sem gerðar eru stífar kröfur um hegðun og virðingu glímumanna.

Harumafuji, nífaldur súmómeistari, er sagður hafa barið félaga sinna Takanoiwa í höfuðið með bjórflösku. Takanoiwa hlaut sprungu í höfuðkúpu af högginu og þurfti að dvelja á sjúkrahúsi í nokkra daga. Harumafuji hefur beðist afsökunar á því að hafa „verið til vandræða“, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Súmóglíma er aldagömul íþrótt sem á rætur sínar að rekja til helgisiða sjintóista. Miklar kröfur eru gerðar til glímukappanna um að þeir hegði sér óaðfinnanlega. Þá er ætlast til þess að þeir sýni engar tilfinningar eftir sigur og stíf virðingarröð ríkir innan súmóheimsins.

Nýleg hneykslismál hafa varpað skugga á íþróttina. Fyrir tíu árum lést súmólærlingur á unglingsaldri af völdum barsmíða eldri glímukappa. Það mál varpaði ljósi á einelti og hrottalegar innvígslur. Í fyrra þurfti glímukappi og liðsstjóri hans að greiða jafnvirði milljóna króna í skaðabætur til glímukappa sem missti sjón á öðru auganu.

Þá hefur verið greint frá tengslum glímukappa við japönsku mafíuna yakuza og hagræðingu úrslita árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×