Erlent

Tengdasonur Trump afhendir gögn vegna Rússarannsóknar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jared Kushner er einn helsti ráðgjafi Donalds Trump
Jared Kushner er einn helsti ráðgjafi Donalds Trump Vísir/epa
Jared Kushner, tengdasonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur afhent Robert Mueller, sérstökum saksóknara í rannsókninni afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum í fyrra og hugsanlegu samráði þeirra við framboð Trump, gögn í tengslum við rannsóknina.

Kushner er einn nánasti ráðgjafi Trump auk þess sem hann er eiginmaður Ivönku Trump. CNN greinir frá því að Mueller og félagar hafi sérstakan áhuga á að því að vita meira um aðkomu Kushner að brottrekstri James Comey úr sæti forstjóra FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, á þessu ári.

Því hafi rannsakendur spurt vitni í rannsókninni um ef og þá hvernig Kushner hafi komið að brottrekstrinum. Í frétt CNN segir að forvitni Mueller og félaga um Kushner bendi til þess að rannsókn þeirra sé farin að færast nær Hvíta húsinu og ákvarðanatöku embættismanna þar eftir að Trump tók við embætti.

Þó segir einnig í frétt CNN að ekkert bendi til þess að Mueller hafi Kushner sérstaklega í sigtinu eins og er. Með því afla gagna sé verið að reyna að fá sem gleggsta mynd á atburðarrásina í tengslum við það hvernig staðið var að brottrekstri Comey.

Kushner er sagður hafa orðið við beiðni Mueller um afhendingu gagnanna án vandkvæða. Hvíta húsið segir að ekki sé óeðlilegt að Mueller vilji afla sér nánari upplýsinga um Kushner þar sem hann sé lykilstarfsmaður í Hvíta húsinu auk þess sem hann hafi gegnt veigamiklu hlutverki í kosningabaráttunni.

Fyrstu ákærurnar í tengslum við rannsóknina á mögulegum afskiptum Rússa af forsetakosningunum og og hugsanlegu samráði þeirra við framboð Trump voru gefnar út í vikunni. Fyrrverandi kosnigastjóri Trump og viðskiptafélagi hans hafa verið ákærðir fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum, peningaþvætti og skattsvik.


Tengdar fréttir

„Bolabíturinn“ sem Trump ætti að óttast

Ef það er eitthvað sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætti að óttast er það aðkoma lögfræðingsins Andrew Weismann að rannsókninni á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra og hugsanlegu samráði þeirra við framboð Trump.

Þetta þarftu að vita um Rússarannsókn Mueller

Rannsóknin á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum í fyrra hefur aftur ratað í kastljós fjölmiðla eftir að fyrstu ákærurnar í rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar voru birtar á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×