Erlent

Japanskir bílaframleiðendur komu af fjöllum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump og Shinzo Abe tókust kumpánlega í hendur eftir fund þeirra í gær.
Donald Trump og Shinzo Abe tókust kumpánlega í hendur eftir fund þeirra í gær. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi harðlega viðskiptahætti Japana í gærkvöldi sem hann sagði ósanngjarna í garð Bandaríkjanna. Lofaði hann því að berjast fyrir sanngjarnari samningum á milli þjóðanna.

Þá skaut hann fast á japanska bílaframleiðendur og krafðist þess að bílar þeirra yrðu framleiddir í Bandaríkjunum. Þetta kom heldur flatt upp á japanska bílaframleiðendur því staðreyndin er sú að þrír fjórðu hlutar þeirra bifreiða sem japanskir framleiðendur selja í Bandaríkjunum eru einmitt framleiddir þar.

Trump er nú á ferðalagi um Asíu og fundaði hann með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japana, í gær. Þar voru varnarmál efst á baugi en Norður-Kóreumenn hafa tvívegis skotið eldflaugum yfir Hokkaido, nyrstu eyju Japans. Bandaríkjaforseti segir Japana nú búa yfir búnaði til að skjóta niður slíkar eldflaugar - þökk sé tækjum og tólum sem þeir hafa keypt af bandarískum fyrirtækjum.

Abe tók í sama streng, landar hans gætu skotið niður eldflaugar ef nauðsyn kræfi.

Eftir fundi sína í Japan mun Trump halda til Suður-Kóreu, Kína, Víetnam og Filippseyja. Um er að ræða lengstu ferð Bandaríkjaforseta til Suðaustur-Asíu í áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×