Innlent

Gervihnattamyndir gefa til kynna að eitthvað sé að gerast í Kverkfjöllum

Jóhann K. Jóhannsson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Hugsanlegt er að uppruni aukinnar rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum sé í Kverkfjöllum. Vísindamenn hafa ekki getað flogið yfir svæðið í dag vegna veðurs, til að fá það staðfest. Rafleiðni í ánni er há en hefur verið stöðug og rennsli hefur ekki verið að aukast.

Vísindamenn frá jarðvísindastofnun Háskóla Íslands báru saman gervihnattamyndir sem annars vegar voru teknar á svæðinu 27. október síðastliðinn og svo í gær. Á þessum myndum sjást lítilsháttar breytingar á vestanverðum Kverkfjöllum.

„Auðvitað veldur þetta ákveðnum heilabrotum þar sem við erum líka með Bárðarbungu á þessu sama svæði og hún skilar líka sínu vatni þarna niður eftir. Öll svona  aukin rafleiðni hún gefur til kynna að það er að aukast jarðhitavatn og það er ákveðin vísbending um það að það tengist eldvirkninni,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallasérfræðingur.

Hann segir að gervihnattarmyndirnar gefi til kynna að eitthvað sé að gerast í Kverkfjöllum.  Það sé þó algengt að það komi lítil hlaup úr þessu svæði í Kverkfjöllum.

Aðspurður hvort tengsl séu á milli þessar rafleiðni og jarðskjálftans við Kópasker í morgun svarar Ármann:  „Nei, kannski ekki bein tengsl en Ísland er náttúrulega svona eitt risa eldfjall þannig að allt tengist þetta á einhvern hátt. Það eru samt ekki bein tengsl á milli skjálftans á Kópaskeri eins og þessara eldfjalla sem eru þarna uppfrá.“

Veðurstofan, Almannavarnir , Jarðvísindastofnun og fleiri fylgjast grannt með framvindu mála á svæðinu. Um leið og veður leyfir verður flogið yfir og verður reynt að safna sýnum úr þeim jökulsprænum sem koma undan jöklinum. Frekari frétta er því hugsanlega að vænta á morgun. 

„Til að ganga úr skugga um að þetta vatn sé að koma úr Kverkfjöllum en ekki einhvers staðar annars staðar frá.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×