Erlent

Kann að hafa banað á annað hundrað sjúklinga sinna

Atli Ísleifsson skrifar
Verði hann sakfelldur er Niels Högel mesti raðmorðingi í sögu Þýskalands.
Verði hann sakfelldur er Niels Högel mesti raðmorðingi í sögu Þýskalands. Vísir/AFP
Saksóknarar í Þýskalandi segja að þýski hjúkrunarfræðingurinn Niels Högel kunni að hafa banað á annað hundrað sjúklinga sinna. Dómstóll í Þýskalandi hefur þegar dæmt Högel fyrir morð á tveimur sjúklingum, en saksóknarar telja nú að hann hafi alls banað 102, mun fleiri en áður var talið.

Í frétt Reuters kemur fram að ef hann yrði sakfelldur í málinu yrði hann mesti raðmorðinginn í sögu Þýskalands.

Högel er fjörutíu ára og starfaði á tveimur sjúkrahúsum, annars vegar í Oldenburg í og hins vegar í Delmenhorst í Neðra-Saxlandi. Rannsókn lögreglu hefur nú leitt í ljós að gögn bendi til að Högel hafi drepið 38 manns í Oldenburg og 62 í Delmenhorst, auk morðanna á þeim tveim sem hann hefur þegar hlotið dóm fyrir.

Högel var sakfelldur fyrir að hafa gefið sjúklingum of stóran skammt af lyfjum sem leiddi til hjartastopps. Í sumum tilvikum reyndi hann að endurlífga sjúklingana í þeim tilgangi að verða álitinn hetja í huga annars starfsfólks á sjúkrahúsunum.

Í réttarhöldum árið 2015 viðurkenndi Högel að hafa orðið mun fleiri sjúklingum að bana en þá var hægt að sanna. Hafa alls 134 lík verið grafin upp til að sannreyna hvað olli dauða viðkomandi.

Saksóknarar greindu frá því í ágúst síðastliðinn að talið var að Högel hafi banað 84 manns, en nú hefur sú tala við hækkuð. Ekki er útilokað talan kunni að hækka enn frekar þar sem niðurstaðna er enn beðið vegna sjúklinga Högel sem jarðsettir voru í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×