Erlent

Gögn sem framboð Trump fékk fóru í gegnum Kreml

Kjartan Kjartansson skrifar
Veselnitskaya neitaði New York Times um viðtal í tengslum við fréttina.
Veselnitskaya neitaði New York Times um viðtal í tengslum við fréttina. Vísir/AFP
„Skaðlegu upplýsingarnar“ um Hillary Clinton sem rússneskur lögmaður lofaði nokkrum nánustu ráðgjöfum Donalds Trump í fyrra höfðu áður verið kynntar einum valdamesta embættismanni Rússlands.

New York Times greinir frá því að Natalía V. Veselnitskaya, rússneski lögmaðurinn sem fundaði með Donald Trump yngri, Jared Kushner, tengdasyni þáverandi forsetaframbjóðandans, og Paul Manafort, þáverandi kosningastjóra Trump, í júní í fyrra hafi áður deilt ásökunum sínum um meint ólöglegt framferði einstaklinga sem tengjast Demókrataflokknum með Júrí Y. Tsjaíka, ríkissaksóknara Rússlands.

Ásakanirnar voru afrakstur rannsóknar Veselnitskaya á bandarískum auðjöfrum og fjárhagslegum bakhjörlum Demókrataflokksins. Þeir eiga að hafa gerst sekir um fjársvik og skattaundanskot í Rússlandi.

Veselnitskaya hefur fram að þessu haldið því að hún hafi fundað með framboði Trump algerlega að eigin hvötum og grefur frásögn New York Times undan þeim fullyrðingum. Blaðið segir ennfremur að þetta sýni að loforð Veselnitskaya um að færa framboðinu skaðlegar upplýsingar um Clinton hafi að minnsta kosti að hluta til byggst á staðreyndum.

Sömu ásökunum komið í hendur þingmanna repúblikana

Í frétt New York Times kemur ennfremur fram að Veselnitskaya og Tsjaíka hafi í sameiningu komið gögnum um ásakanirnar á hendur styrktaraðilum Demókrataflokksins til sendinefndar bandarískra þingmanna í Moskvu í apríl í fyrra.

Blaðið segir að skjal sem Dana Rohrabacher, þingmaður Repúblikanaflokksins sem þykir sérlega hallur undir Rússland, hafi fengið þá sé að mörgu leyti samhljóða því sem Veselnitskaya hafi komið með á fundinn með Trump yngri, Kushner og Manafort tveimur mánuðum síðar.

Trump og félagar hafa ítrekað vísað ásökunum um samráð við Rússa á bug.

Sá fundur er á meðal þess sem Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, kannar í tengslum við rannsókn sína á tilraunum rússneskra stjórnvalda til að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar í fyrra og hvort að þau hafi átt í samráði við framboð Trump.

Trump yngri var lofað skaðlegum upplýsingum um Clinton frá rússneska lögmanninum sem var lýst fyrir honum sem lið í herferð rússneskra stjórnvalda til að tryggja föður hans sigur. Því boði svaraði sonur þáverandi forsetaframbjóðandans: „Ég elska það!“


Tengdar fréttir

„Ég elska það“: Trump yngri birtir tölvupóstana

Í póstunum segir berum orðum að fundurinn sé til að koma upplýsingum í þeirra hendur sem gætu skaðað framboð Hillary Clinton og að það sé liður í aðgerðum stjórnvalda Rússlands til að styðja framboð Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×