Erlent

Færði Pútín hundinn Trygg að gjöf

Atli Ísleifsson skrifar
Gurbanguly Berdymuchamedov, Vladimír Pútín og hundurinn Tryggur.
Gurbanguly Berdymuchamedov, Vladimír Pútín og hundurinn Tryggur. Vísir/AFP
Gurbanguly Berdymuchamedov, forseti Túrkmenistans, færði Vladimír Pútín Rússlandsforseta hund í afmælisgjöf þegar þeir funduðu í rússnesku borginni Sochi í morgun. Pútín hélt upp á 65 ára afmæli sitt um helgina.

„Nú eigum við sameiginlegan vin,“ sagði Berdymuchamedov þegar hann hélt á hundinum og færði svo starfsbróður sínum. Hundurinn er túrkmenskur fjárhundur (alabai), en tegundin er álitin hluti af þjóðararfi Túrkmena.

Pútín, sem er þekktur hundavinur, tók á móti hvolpinum og kyssti svo höfuð hans. Hundurinn hefur fengið nafnið Vernyj (Tryggur).

Berdymuchamedov vonast til að hefja sölu á túrkmesku gasi til Rússlands á ný, en Túrkmenistan býr yfir fjórðu mestu gasauðlindum heims. Stærstur hluti gassins er nú seldur til Kína, en Rússar hættu kaupum á túrkmensku gasi á síðasta ári vegna deilna um verð. Túrkmenar vonast hins vegar til að viðskiptin verði nú tekin upp að nýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×