Erlent

Erindreki SÞ kallaður heim frá Mjanmar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flóttamaður í Bangladess syrgir dóttur sína sem fórst á flótta.
Flóttamaður í Bangladess syrgir dóttur sína sem fórst á flótta. Nordicphotos/AFP
Æðsti erindreki Sameinuðu þjóðanna í Asíuríkinu Mjanmar hefur verið kallaður heim. Um þetta tilkynntu Sameinuðu þjóðirnar í gær.

Erindrekinn sem um ræðir, Renata Lok-Dessallien, var miðpunktur rannsóknar BBC í síðasta mánuði þar sem hún var sögð kæfa umræður innan Sameinuðu þjóðanna um stöðu þjóðflokks Rohingja í Mjanmar. Jafnframt leiddi rannsóknin í ljós að hún hefði reynt að koma í veg fyrir að starfsmenn mannréttindabaráttusamtaka heimsæktu ákveðin svæði í Mjanmar.

Rúmlega hálf milljón Rohingja hefur flúið til Bangladess frá því í ágúst. Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir Rohingja sæta ofsóknum í heimalandinu. Herinn í Mjanmar ráðist á þá, taki þá af lífi án dóms og laga og brenni bæi þeirra til grunna.

Í frétt BBC af ákvörðun SÞ kemur fram að heimildarmenn í höfuðborginni Yangon fullyrði að ákvörðunin byggist á því að Lok-Dessallien hafi ekki haft mannúðarsjónarmið í forgrunni í starfi sínu.

Stóll erindrekans hefur verið heitur undanfarna mánuði en fyrir tveimur vikum sagði í tilkynningu frá framkvæmdastjóra SÞ að Lok-Dessallien nyti fulls trausts. 


Tengdar fréttir

Eignast meirihluta í Fiskeldi Austfjarða

Norska fiskeldisfyrirtækið NTS ASA hyggst festa kaup á 45,2 prósenta hlut í Fiskeldi Austfjarða, sem stundar fiskeldi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Seljandi er annað norskt fyrirtæki, MNH Holding.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×