Innlent

Segir sérreglur um mjólkurframleiðslu ekki ganga lengur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Margrét Tryggvadóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, voru meðal gestir Víglínunnar í dag.
Margrét Tryggvadóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, voru meðal gestir Víglínunnar í dag. Vísir/Skjáskot

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og nýkjörinn formaður Viðreisnar, telur grundvallaratriði að íslensk stjórnvöld haldi áfram stuðningi við bændur. Hún ítrekar þó að ekki beri að stimpla núverandi kerfi sem fullkomið og að enn fremur gangi ekki að mjólkurframleiðsla fái undanþágu frá samkeppnislögum.

Þorgerður Katrín var á meðal gesta Heimis Más Péturssonar í Víglínunni á Stöð 2 í hádeginu í dag og ræddi þar stöðu landbúnaðarmála.

Bætti í búvörusamning gegn því að farið yrði í raunhæfar breytingr
Aðspurð vildi Þorgerður Katrín ekki gangast við því að hafa stefnt að því að „rústa bændum í sauðfjárrækt“ í embætti landbúnaðarráðherra.

„Finnst þér það virkilega þegar ég beiti mér fyrir því að koma með viðbót inn í tiltölulega nýgerðan búvörusamning? Og það er náttúrulega hróplegt að korteri eftir að búvörusamningurinn er gerður, sem vel að merkja Samfylkingin samþykkti líka, þá koma bændur til ríkisins og vilja fá til viðbótar. Þá hlýtur að vera eitthvað að.“

Sjá einnig: Gagnrýnir andvaraleysi landbúnaðarráðherra

Þá kvaðst hún hafa verið að bæta í þann samning sem búið var að gera.

„Já, ég var að gera það, gegn því að við færum í raunhæfar breytingar á stuðningskerfi landbúnaðarins. Við horfumst í augu við vandamálið, færum að styðja við þá bændur sem væru raunverulega á fullu í greininni, unga bændur, við færum í það að svæðisbinda styrkina, það vildi bændaforystan ekki,“ sagði Þorgerður Katrín.

Gengur ekki lengur að mjólkurframleiðslan sé með sérreglur
Þorgerður Katrín sagði enn fremur að reynt hefði verið að ná jafnvægi á framleiðslu í landbúnaði og gera úttekt á afurðastöðvum. Ekki þýddi þó að stimpla kerfið, sem nú væri við lýði, fullkomið.

„Það er algjört grundvallaratriði að íslensk stjórnvöld, og ég vona að hvaða flokkar sem það eru, við ætlum að halda áfram að styðja við bændur. En það þýðir ekki að við stimplum núverandi kerfi sem fullkomið, og það sama gildir til dæmis um mjólkurframleiðsluna,“ sagði Þorgerður Katrín.

Hún sagðist finna fyrir andstöðu nokkurra flokka á Alþingi við breytingar á því fyrirkomulagi en málið var áberandi í fjölmiðlum í byrjun árs.

„Það gengur ekki lengur að mjólkurframleiðslan sé með sérreglur eða undanþágu frá samkeppnislögum. Ég finn fyrir miklum mótbyr af hálfu Sjálfstæðismanna við því að breyta því, af hálfu Framsóknarmanna og örugglega Miðflokksins líka.“

Viðtal Heimis Más við þær Margréti Tryggvadóttur, frambjóðanda Samfylkingarinnar, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.