Afurðaverð Sláturfélag Suðurlands lækkar um fjórðung á milli ára samkvæmt nýrri verðskrá sem var gefin út á föstudag og aðrir sláturleyfishafar hafa tilkynnt um allt að 35% lækkun á verði til bænda.
Þóra Sif Kópsdóttir, sauðfjárbóndi á Ystu-Görðum á Snæfellsnesi, segist einungis geta krosslagt fingur og vonað hún geti náð endum sama og greitt af lánum í haust.
„Við vorum búin að heyra þetta í vor þannig að maður hefur bara unnið á fullu fullt af aukavinnu í allt sumar til að minnka skellinn en þetta er rosalegur skellur,“ sagði Þóra Sif í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Costco sýnir fram á skort á nýsköpun hjá afurðastöðvum
Tekjur sauðfjárbænda hafa dregist saman um 45% á tveimur árum, að hennar sögn.
„Þetta var áþreyfanlegur munur í fyrra. Þetta var eitthvað nærri tíu prósent lækkun í fyrra. Ef við eigum að fá 35% í viðbót núna þá sér það bara hver maður að ef launin þeirra dragast saman um 35% að það er rosalega erfitt að lifa þá,“ segir Þóra Sif.

„Núna með tilkomu Costo þá sér fólk í fyrsta skipti lambahakk og allt aðrar aðferðir við skurð á lambinu. Maður sér að neytendur eru glaðir með það. Maður spyr bara hvað afurðastöðvarnar voru að gera í öll þessi ár?“
Hagsmunir þjóðarinnar að hafa landbúnað
Hún telur jafnframt að landbúnaðarráðherra eigi að beita sér fyrir auknum útflutningi lambakjöts en það hefur Þorgerður Katrín ekki viljað gera.
„Þetta eru náttúrulega hagsmunir þjóðarinnar að það sé landbúnaður í landinu. Við ættum nú að vera með landbúnaðarráherra á bak við okkur að hjálpa okkur en við höfum ekkert orðið vör við að hún sé að hjálpa okkur,“ segir Þóra Sif.