Erlent

Kona sem neitaði að bólusetja son sinn fangelsuð

Kjartan Kjartansson skrifar
Áróður andstæðinga bólusetninga hefur fengið hljómgrunn á sumum svæðum í Bandaríkjunum. Þar hafa jafnvel blossað upp faraldrar smitsjúkdóma eins og mislinga í kjölfarið.
Áróður andstæðinga bólusetninga hefur fengið hljómgrunn á sumum svæðum í Bandaríkjunum. Þar hafa jafnvel blossað upp faraldrar smitsjúkdóma eins og mislinga í kjölfarið. Vísir/AFP
Bandarísk kona sem óhlýðnaðist dómsúrskurði um að hún skyldi láta bólusetja son sinn hefur verið dæmd í sjö daga fangelsi. Fyrrverandi eiginmaður hennar hefur fengið tímabudið forræði yfir drengnum til að láta bólusetja hann.

Forsaga málsins er sú að foreldrarnir, sem búa í Michigan í Bandaríkjunum, höfðu sammælst um að láta bólusetja níu ára gamlan son sinn. Þegar til kastanna kom neitaði konan hins vegar að láta verða af því. Hún lýsti því við réttarhöldin að hún hefði enga trú á bólusetningum.

Samkvæmt lögum Michigan-ríkis mega foreldrar sleppa eða seinka bólusetningum vegna persónulegra skoðana. Konunni var hins vegar skipað að bólusetja drenginn vegna samkomulagsins sem hún hafði gert við föður hans, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Andstæðingum bólusetninga sem byggja málflutning sinn á lönguhröktum fullyrðingum um meinta skaðsemi þeirra hefur orðið sérlega ágegnt í Michigan. Þar er hlutfall bólusettra barna eitt það lægsta í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×