Erlent

Segir af sér vegna vinnuferða með einkaþotum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Tom Price.
Fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Tom Price. Vísir/AFP
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Tom Price, hefur sagt af sér í kjölfar þess að upp komst um tíðar ferðir hans með einkaþotum vegna vinnu sinnar.

Bandaríski stjórnmálafjölmiðillinn Politico greindi fyrst frá einkaþotumálinu en rannsókn blaðamanna miðilsins leiddi í ljós að Price hafði flogið að minnsta kosti 26 sinnum með einkaþotu í opinberum erindagjörðum síðan í byrjun maí.

Opinberir starfsmenn í Bandaríkjunum, utan þeirra sem starfa við þjóðaröryggismál, eru skyldaðir til að ferðast með almennum flugfélögum vegna vinnu sinnar en heildarkostnaður vegna flugferða Price með einkaþotum er áætlaður um 300 þúsund Bandaríkjadalir (31,6 milljónir íslenskra króna).

„Heilbrigðisráðherrann Thomas Price sagði af sér fyrr í dag og forsetinn varð við afsögn hans,“ sagði í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu sem send var út í dag.

Price baðst afsökunar á málinu í gær og sagðist enn fremur ætla að borga hluta af kostnaði vegna flugferðanna til baka. Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í fyrradag að hann væri „ekki ánægður“ með ferðamáta heilbrigðisráðherrans en ætlaði að „sjá til“ hvort hann myndi víkja honum úr embætti.

Sjá einnig: Biðst afsökunar á því að fljúga ítrekað með einkaþotum í vinnuna

Price er fyrsti ráðherra í ríkisstjórn Trumps sem segir af sér. Þá sæta tveir embættismenn enn rannsókn vegna kostnaðarsamra ferðalaga en Scott Pruitt, yfirmaður Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna og fjármálaráðherrann, Steven Mnuchin, eru einnig sakaðir um að hafa eytt fjármunum úr hófi fram í flugferðir með einkaþotum vegna vinnu sinnar.

Í frétt Politico segir að Bandaríkjaforseti muni skipa Don Wright, sem gegnir nú embætti aðstoðarheilbrigðisráðherra, í embætti heilbrigðisráðherra þangað til eftirmaður Price verður formlega valinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×