Enski boltinn

Van Gaal um brottreksturinn: Var stunginn í bakið af félaginu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mourinho og Van Gaal á sínum tíma.
Mourinho og Van Gaal á sínum tíma. Vísir/getty
Louis van Gaal sakar Manchester United um að hafa stungið sig í bakið er hann var rekinn frá félaginu síðasta vor aðeins sólarhring eftir að hafa tekið við enska bikarmeistaratitlinum.

Van Gaal stýrði liði Manchester United í tvö ár en undir hans stjórn mistókst liðinu að komast í Evrópukeppni á seinna tímabili hans. Var honum sagt upp störfum þegar eitt ár var eftir af samningi hans og tók Jose Mourinho við stjórnartaumunum.

Hefur hann ekki rætt brottreksturinn fram að þessu en hann var ósáttur með hvernig félagið stóð að þessu en talað hafði verið um komu Mourinho vikum saman.

„Það var ótrúleg pressa á mér og félagið fór og stakk mig í bakið með þessu. Þetta var leikflétta eins og í kvikmynd og var unnið á bak við tjöldin að þessu frá janúar. Konan mín sagðist hafa fundið þetta á sér í janúar en ég neitaði að trúa því.“

Hann las fyrst um áætlanir félagsins í fjölmiðlum sem honum fannst særandi.

„Þeir greindu mér frá þessu eftir að allir fjölmiðlarnir voru búnir að fjalla um þetta, ég hef aldrei verið jafn vonsvikinn. Hefðu þeir rætt þetta við mig í janúar hefði ég sætt mig við það og unnið að þessu í sameiningu með félaginu,“ sagði van Gaal og hélt áfram:

„Ég hefði verið tilbúinn að stíga til hliðar og gefa eftir launin mín á lokaári samningsins en eftir að ég sá hvernig þeir fóru að þessu þá krafðist ég hverrar einustu krónu frá félaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×