Innlent

Bjarni hefur beðist lausnar og starfsstjórn situr áfram

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Bjarni ræðir við blaðamenn eftir fund sinn með Guðna.
Bjarni ræðir við blaðamenn eftir fund sinn með Guðna. visir/anton
Bjarni Benediktsson hefur lokið fundi með forseta Íslands og beðist lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína, sem forseti hefur fallist á. 

Bjarni hélt á fund Guðna klukkan ellefu í morgun og stóð fundurinn í tæpar fjörutíu mínútur. Eins og kunnugt er hefur stjórnarsamstarfi verið slitið og boðað til kosninga síðar í haust.

Bjarni tilkynnti á blaðamannafundi eftir fundinn með forseta Íslands að starfsstjórn komi til með að sitja þar til gengið er til kosninga. 



Uppfært kl. 12:00

Starfsstjórnir eru samkvæmt skilgreiningu skipaðar ráðherrum fráfarandi ríkisstjórnar. Starfsstjórnin sem tekur nú við stjórnartaumnum mun sitja til bráðabirgða þar til gengið verður til kosninga og gegna daglegri stjórn og skyldum.

Bjarni sagðist hafa verið í sambandi við Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé, formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, um lausnarbeiðni sína. Bjarni sagði að þeir yrðu að meta það sjálfir hvort þeir muni sitja áfram í ríkisstjórn fram að kosningum. Bjarni sagði það vera sitt álit að menn ættu einfaldlega að axla þá ábyrgð.

Stefnt er að því að kjósa 4. nóvember að sögn Bjarna og er almenn sátt um það að hans sögn. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er fyrirhugaður 3. - 5. nóvember. Spurður hvort flýta eigi landsfundi í ljósi þessa sagði hann að það ætti eftir að skoða það en slík ákvörðun er í höndum miðstjórnar flokksins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×