Fótbolti

Freyr: Stór lið hafa sýnt íslenskum leikmönnum áhuga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Freyr og Ásmundur á blaðamannafundi í dag.
Freyr og Ásmundur á blaðamannafundi í dag. Vísir/Vilhelm
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að mörg stórlið í Evrópu hafi áhuga á íslenskum leikmönnum. Áhugi þeirra hafi kviknað eftir EM í Hollandi í sumar.

Frægt er þegar Freyr sagði að innhólf hans væri fullt af fyrirspurnum um íslensku leikmennina en nú þegar er ljóst að Fanndís Friðriksdóttir muni fara frá Breiðabliki í sumar. Hún er nú með tilboð frá Marseille í höndunum sem hún sé nú að skoða.

„Ég get auðvitað ekki sagt mikið um þetta en ég veit að mörg félög hafa sýnt mörgum áhuga. Ég veit þó minna um þetta en leikmennirnir sjálfir,“ sagði Freyr á blaðamannafundi KSÍ í dag, þar sem hann tilkynnti leikmannahóp sinn fyrir landsleik gegn Færeyjum í undankeppni HM 2019.

„Það er þó eitthvað sem er að gerast í þessum málum og gæti gerst á næstunni. Vonandi gerir það það. Það er þó stutt á milli í þessu eins og við vitum öll,“ sagði hann.

Freyr sagði þó mikilvægt að hugsa um þessi mál til lengri tíma, ekki bara í þessum félagaskiptaglugga sem lokar í flestum löndum snemma í september.

„Leikmenn þurfa að átta sig á því að það er ekki langur vegur fyrir þær að komast í betri deildir og betri lið. Hæfileikarnir eru til staðar.“


Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundur Freys

Freyr Alexandersson tilkynnti í dag landsliðshóp sinn fyrir fyrsta leik Íslands í undankeppni HM 2019.

Fanndís ekki búin að skrifa undir

Fanndís Friðriksdóttir er ekki búin að semja við Marseille í Frakklandi, eins og greint var frá um síðustu helgi. Þetta staðfesti Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands, á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×