Innlent

Veikindi hjá skátum: 181 verið fluttur í fjöldahjálparstöðina

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar

181 einstaklingur hefur verið fluttur frá Úlfjljótsvatni í fjöldarhjálpastöðina í Hveragerði. Af þeim hafa 63 verið með einkenni. Enn eru að koma upp einkenni hjá nýjum einstaklingum, aðrir eru á batavegi og enn aðrir eru orðnir einkennalausir.



„Enginn er, eða hefur verið, alvarlega veikur þannig að til sjúkrahússinnlagnar hafi komið. Nú er beðið niðurstöðu rannsókna á sýnum sem þegar hafa verið send Landspítala á því um hvers eðlis umrædd veikindi eru. Fyrstu niðurstaðna er að vænta eftir miðjan dag í dag en líklegast er talið að um Noro veiru sé að ræða,” segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.



Ákveðið var að koma upp fjöldahjálparstöðinni til að einangra hina sýktu í umdæminu. Ekki var hægt að flytja þá alla á heilbrigðisstofnanir eða á Landspítalann vegna smithættunnar sem af þeim stafar. Er um að ræða einhverja umfangsmestu sjúkraflutninga sem upp hafa komið hér á landi.



Sjá einnig: 175 skátar fluttir af Úlfljótsvatni í einangrun vegna alvarlegra veikinda



Rauði kross Íslands heldur utan um starfið í fjöldahjálparstöðinni ásamt heilbrigðisstarfsfólki sem mun fylgja eftir þeim einstaklingum sem eru einkennalausir og geta farið. Þetta verður gert í samráði við skátahreyfinguna, en allt eru þetta skátar á samkomu þeirra og aðstandenda þeirra. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er við störf á Úlfljótsvatni en hluta húsnæðis skáta þar hefur verið lokað um sinn.



Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, segir það hafa verið mjög skynsamlega ákvörðun að koma á laggirnar fjöldahjálparmiðstöðinni. Hann telur líklegt að um nóróveirusýkingu sé að ræða. Helstu einkenni séu uppköst, magakrampar og í sumum tilfellum niðurgangur. Hann segir uppköstin vera mjög smitandi og þá berist sýkingin einnig frá manni til manns.



Sýkingin geti því dreifst hratt - ekki síst þegar mikið af fólki er saman komið á tiltölulega afmörkuðu svæði eins og raunin var í útilífsmiðstöðinni á Úlfljótsvatni. Sambærilegar hópsýkingar hafi þannig komið upp áður við sambærilegar aðstæður, svo sem í skemmtiferðaskipum. Þegar slík tilfelli koma upp er sjaldgæft að sýkingin dreifist langt út fyrir hópinn sem sýktist í upphafi og því segir Haraldur að fólk ætti að geta ferðast áhyggjulaust um Suðurland í dag. Ekki sé ástæða til að hafa almennar áhyggur af ástandinu.



Viðbragðsaðilar munu funda seinna í dag og skipuleggja næstu daga.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×