Erlent

Róttækur vinstriflokkur næði mönnum inn á norska þingið

Atli Ísleifsson skrifar
Norðmenn ganga til kosninga þann 10. september næstkomandi.
Norðmenn ganga til kosninga þann 10. september næstkomandi. Vísir/Getty

Róttæki vinstriflokkurinn Rødt myndi ná mönnum inn á norska þingið ef gengið yrði til kosninga í dag. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar sem framkvæmd var fyrir norska TV2.



Rødt fengi samkvæmt könnuninni 4,7 prósent fylgi, en þröskuldurinn til að ná mönnum inn á norska þingið er fjögur prósent.



Sósíalíski vinstriflokkurinn (SV), sem er nú með sjö þingmenn, fengi ekki nægjanlegt fylgi til að ná mönnum á þing þar sem flokkurinn mælist nú með 3,6 prósent. Sömu sögu er að segja af Kristilegum demókrötum, annars stuðningsflokka ríkisstjórnar Ernu Solberg forsætisráðherra, sem mælist með 3,9 prósent.



Verkamannaflokkurinn, SV og Miðflokkurinn hafa saman mælst með meirihluta í síðustu könnunum TV2 en ná ekki sameiginlegum meirihluta í nýjustu könnuninni þar sem dregur bæði úr fylgi Verkamannaflokksins og Miðflokksins. 30,3 prósent segjast myndu kjósa Verkamannaflokkinn, en 12,6 prósent Miðflokkinn.



Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, hefur í kosningabaráttunni ítrekað hafnað því að mynda ríkisstjórn með Rødt.



Høyre, flokkur Solberg, mælist með 21,5 prósent, 0,8 prósent minna en í síðustu könnun. Fylgi Framfaraflokksins mælist 13,7 prósent og helst óbreytt frá síðustu könnun.



Norðmenn ganga til kosninga þann 10. september næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×