Erlent

Gjá myndast milli Trump og flokksins

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump og McConnell.
Trump og McConnell. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gagnrýndi Mitch McConnell, leiðtoga meirihlutans í öldungadeild Bandaríkjaþings, á Twitter nú í kvöld. Þá gagnrýndi forsetinn þingmanninn fyrir það að ekki hafi tekist að afnema heilbrigðis- og sjúkratryggingakerfislög Bandaríkjanna, sem í daglegu tali nefnast Obamacare.

McConnell sagði nýverið að forsetinn hefði haft of miklar væntingar varðandi hraða hins lýðræðislega ferlis.

„Ég held ekki. Eftir að hafa hlustað á „afnema og skipta út“ í sjö ár, af hverju var það ekki gert?“ skrifar Trump á Twitter.

Sean Hannity, fréttamaður Fox og einn helsti stuðningsmaður Trump, gagnrýndi McConnell einnig á Twitter í dag. Hannity sagði McConnell vera auman og kjarklausan leiðtoga sem stæði ekki við orð sín. Hann ætti að hætta á þinginu.

Hannity er þó ekki eini bandamaður Trump sem hefur gagnrýnt McConnell að undanförnu. Það gerði Dan Scavino yngri einnig, en hann stjórnar samfélagsmiðlum Hvíta hússins.

Gagnrýni Trump og bandamanna hans kemur á slæmum tíma fyrir forsetann sem þarf að treysta á hjálp McConnell til að koma fyrirhuguðum skattabreytingum sínum í gegnum þingið. McConnell nýtur mikillar virðingar meðal þingmanna, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.



Þá hefur Trump einnig deilt við þingmenn Repúblikanaflokksins að undanförnu vegna Jeff Sessions, dómsmálaráðherra og fyrrverandi öldungadeildarþingmanns. Trump hefur gagnrýnt hann harðlega fyrir að segja sig frá Rússarannsókninni svokölluðu. Fjöldi þingmanna hefur gagnrýnt forsetann fyrir gagnrýni hans á Sessions.

Washington Post segir samband Trump og flokksins hafa beðið hnekki að undanförnu, en þeim hefur hingað til ekki tekist að koma neinu stóru máli í gegn. Þrátt fyrir að þeir séu með meirihluta í báðum deildum þingsins.

Varðandi heilbrigðisfrumvarpið þá tóks McConnell ekki að semja til frumvarp sem allir þingmenn flokksins sættu sig við. Undir lokin reyndi öldungadeildin að greiða atkvæði um að fella niður Obamacare en ákvörðunin tæki ekki gildi fyrr en eftir tvö ár. Nokkrir þingmenn flokksins sættu sig ekki við þá óvissu og felldu frumvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×