Erlent

Tóku hart á ömmum og öfum í mótmælagöngu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla í Caracas, höfuðborg Venesúela, fór óvarlegum höndum um eldri borgara sem mótmæltu framgöngu ríkisstjórnar landsins.
Lögregla í Caracas, höfuðborg Venesúela, fór óvarlegum höndum um eldri borgara sem mótmæltu framgöngu ríkisstjórnar landsins. Vísir/EPA
Eldri borgarar í Caracas, höfuðborg Venesúela, hópuðust saman í mótmælum gegn ríkisstjórn landsins í gær. Í mars tilkynnti forseti Venesúela, Nicolas Maduro, um breytingar á stjórnarskrá landsins sem kveða á um að stjórnlagaþingi verði komið á fót. Þannig verði stjórnarskráin færð úr höndum þingsins þar sem stjórnarandstaðan er í meirihluta. Greint er frá þessu í frétt CNN.

Ástandið í landinu er því eldfimt en þegnar þess standa um þessar mundir í daglegum mótmælum gegn yfirvöldum. Margir hafa látið lífið í átökum almennra borgara við lögreglu.

Í gær létu ömmur og afar þannig til sín taka og gengu fylktu liði ásamt mótmælendum, sem hingað til hafa frekar verið í yngri kantinum. Sumir þátttakenda höfðu með sér barnabörn sín og aðrir báru heimagerðar gasgrímur.

Lögregla hélt ekki hlífiskildi yfir mótmælendum og sprautaði á þá piparúða. Í Venesúela ríkir skortur á bæði mat og lyfjum en yfirvöld þar í landi hafa ítrekað verið sökuð um harkaleg viðbrögð við mótmælunum.

Rafael Prieto, áttræður leigubílstjóri, tók þátt í mótmælunum á föstudag. Hann sagðist miður sín yfir kúgun ríkisstjórnarinnar í garð mótmælendanna. Prieto óskaði þess einungis að barnabörn sín fengju „það besta sem lífið hefur upp á að bjóða: frið, mat og lyf.“


Tengdar fréttir

Vilja meiri mótmæli

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Venesúela hvöttu í gær til áframhaldandi mótmæla. Á miðvikudag mótmæltu þúsundir á götum höfuðborgarinnar Caracas. Kölluðu aðgerðasinnar mótmælin "móður allra mótmæla“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×