Erlent

Braust inn og skaut unglingspilt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Drengurinn hét Brayden Dillon og hefði orðið sextán ára á morgun, 12.júlí.
Drengurinn hét Brayden Dillon og hefði orðið sextán ára á morgun, 12.júlí. vísir/getty
Yfirvöld í Ástralíu hafa gefið út ákæru á hendur 26 ára karlmanni sem grunaður er um að hafa banað 15 ára pilt á heimili hans í Sydney í apríl síðastliðnum. Maðurinn er sakaður um að hafa brotist inn á heimili fjölskyldu drengsins og skotið hann í höfuðið þar sem hann lá sofandi í svefnherbergi sínu.  

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Braut upp útidyrahurðina

Málið hefur vakið mikinn óhug í Ástralíu. Morðið átti sér stað í Sydney um kvöldmatarleyti á föstudaginn langa, 14. apríl, þegar árásarmaðurinn braut upp útidyrahurðina hússins og gekk inn. Hann hótaði móður piltsins en stjúpfaðir hans og ung systkini voru einnig heima þetta kvöld. Því næst gekk maðurinn inn í svefnherbergi drengsins og skaut hann af stuttu færi.

Drengurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af áverkum sínum.

Maðurinn komst undan en skömmu eftir árásina var lýst eftir honum í áströlskum fjölmiðlum. Þar var honum lýst sem meðalháum, grönnum manni á milli átján og tuttugu ára.

Árásarmaðurinn var svo handtekinn í gær eftir að lögregla birti myndir sem náðust af bíl hans skammt frá vettvangi, en maðurinn er sagður hafa ekið um hverfið áður en hann lét til skarar skríða. Maðurinn verður leiddur fyrir dómara í dag.

Pilturinn hefði orðið sextán ára á morgun, að því er segir á vef BBC.

Lögreglan í Sydney birti eftirfarandi myndband í gær:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×