Fótbolti

Það sáust á tár á hvörmum stelpnanna okkar eftir að þær sáu þetta myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta kvaddi klakkann í dag og flugu til Hollands þar sem þær spila sinn fyrsta leik á EM kvenna á þriðjudaginn kemur.

Það var sérstök kveðjuathöfn í Leifsstöð sem var í beinni hér á Vísi en stelpurnar fengu frábærar móttökur í flugstöðinni og úr varð mjög skemmtileg stund.

Áður en þær gengu um borð í vélina þá var spilað magnað myndband fyrir íslenska liðið þar sem þær fengu hverja kveðjuna á fætur annarri.

Það var mikið hlegið og stelpurnar höfðu mjög gaman af en það mátti líka sjá tár á hvörmum stelpnanna okkar á meðan myndbandið var sýnt.

Þarna voru bæði fjölskyldur og vinir stelpnanna að senda þeim kveðjur sem og öflugir íþróttamenn eins og spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir,  bardagamaðurinn Gunnar Nelson, landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson og körfuboltakonan Helena Sverrisdóttir svo einhver séu nefnd.

Ekki má heldur gleyma Ólafi Stefánssyni en líklega voru það vinkonur Fanndísar Friðriksdóttur sem stálu senunni en þær hlakka til að fylgjast með sinni konu á HM.

Icelandair gerði myndbandið og er líka búið að setja síðu í loftið þar sem hægt er að hvetja stelpurnar okkar áfram. Það er enn hægt að senda stelpunum kveðju með því að setja myndband inn á síðuna sem má nálgast hér.

Myndbandið sem stelpurnar horfðu áður en þær fóru af stað út í flugvél má sjá hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×